Nokkur snjóflóð féllu um helgina á Vestfjörðum og norðanverðum Tröllaskaga í norðaustan hraglanda.
Þau féllu öll utan byggða og tepptu ekki umferð á vegum. Áfram er spáð norðaustanáttum á þessum slóðum með éljum eða snjókomu og versnandi veðri á morgun.
Því telur Veðurstofan töluverða hættu á snjóflóðum á Vestfjörðum og Tröllaskaga næstu daga og nokkur snjóflóðahætta er enn á Austfjörðum, en allstaðar utan byggða. Viðvaranir Veðurstofu beinast því fyrst og fremst að skíða- og vélsleðafólki.
