Sport

Kári Steinn: Góðir hlutir gerast hægt

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kári Steinn Karlsson.
Kári Steinn Karlsson. Mynd/Anton
„Það er alltaf gaman að vinna en markmiðið í dag var einfalt, ég ætlaði að ná Íslandsmetinu en ég hljóp illa í dag,“ sagði Kári Steinn Karlsson, langhlaupari eftir hlaupið í dag.

„Það er erfitt að hlaupa svona einn án samkeppni, maður stífnar meira upp og maður er meira að berjast frekar en að hengja sig aftan í einhverjum að berjast við einhvern um fyrsta sætið. Formið er til staðar og andinn var til staðar í dag en líkaminn fylgdi ekki,“

Kári var annars bara nokkuð brattur fyrir keppnir sem framundan eru á nýju ári.

„Ég er nýkominn heim úr erfiðum æfingarbúðum erlendis svo ég er ekkert að stressa mig á þessu. Bætingarnar eiga eftir að koma, ég finn það þar sem ég er í mjög góðu formi,“

„Þetta er fyrsta hlaup ársins og maður er alltaf aðeins ryðgaður í upphafi árs. Þetta kemur með tímanum, ég er alveg viss um það þar sem góðir hlutir gerast hægt,“

Kári var ánægður með stemminguna sem myndaðist í Laugardalshöll í dag en áhorfendur voru duglegir að hvetja Kára í hlaupinu.

„Það var alveg frábær stuðningur, það er ekki oft sem það myndast stemming á frjálsíþróttamótum á Íslandi og þetta var skemmtileg tilbreyting. Það er allt annað að hlaupa í þessu,“ sagði Kári léttur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×