Skoðun

Tæki­færi í um­hverfis­málum

Elín Hirst skrifar

Eins og allt hugsandi fólk hef ég áhyggjur af því hvernig við göngum um plánetuna Jörð og hvernig við munum skila henni til afkomenda okkar. Nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sýnir að tími er kominn til að snúa við blaðinu og vona að það sé ekki of seint. Margt smátt gerir eitt stórt.



Eitt af því sem mér fannst til eftirbreytni í þessum efnum nýlega var þegar eigendur fiskbúðarinnar í hverfinu mínu brydduðu upp á þeirri nýjung að selja viðskiptavinum sínum bréfpoka í stað plastpoka. Ég hef einnig tekið eftir því að æ fleiri koma með innkaupatuðrur með sér þegar þeir kaupa í matinn í stað þess að kaupa plastpoka. Þetta finnst mér til fyrirmyndar og mig langar sjálfa að taka upp nýja siði í þessum efnum.



Á dögunum kynntist ég enn einni umhverfisvænu nýjunginni. Það eru heimilisplastpokar úr maíssterkju sem eru uppleysanlegir úti í náttúrunni, en það tekur venjulega plastpoka mörg hundruð ár að eyðast þar eftir því sem ég kemst næst. Fleira er að breytast.

Nú eru bílaframleiðendur farnir að horfa til koltrefja í stað stáls við bílaframleiðslu til að spara eldsneyti og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Koltrefjar eru afar létt og sterkt efni sem hentar vel við smíði bíla og með notkun þess er hægt að létta farartækin svo þau þurfi minna af orku.



Nýlega svaraði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni alþingismanni um koltrefjaframleiðslu á Íslandi þar sem fram kemur að Ísland er meðal samkeppnishæfustu landa hvað kostnað varðar vegna koltrefjaframleiðslu. Framleiðsla koltrefja krefst orku sem Íslendingar eru í fremstu röð við að búa til á sjálfbæran og hagkvæman hátt, auk þess sem lega landsins milli Evrópu og Ameríku er ákjósanleg.



Í Skagafirði eru menn farnir að undirbúa stofnun fyrirtækis til framleiðslu á koltrefjum. Þar verður spennandi að fylgjast með. Það er mikilvægt að við Íslendingar hugsum til framtíðar í umhverfismálum og nýtum þannig þau tækifæri sem þar skapast til að góðra verka.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×