Bretar, þreyttir á sólarstrandarhangsinu, héldu á vit ævintýranna á kuldalegu Íslandi. Þetta er í það minnsta niðurstaða leitarvélarinnar Bing. Vefsíðan greinir frá því að Ísland hafi verið sá staður sem flestir notendur leitarvélarinnar hafi slegið upp á árinu.
Á hæla Íslands í leitinni koma New York, Frakkland og Spánn. Þar á eftir Holland, Tyrkland, Taíland, Ungverjaland, Portúgal og Ítalía. Frægt varð hvernig gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 varð til þess að komum ferðamanna til Íslands fjölgaði til muna. Reikna má með því að áhugi Breta á Íslandi tengist að einhverju leyti umbrotunum í Bárðarbungu og Holuhrauni undanfarna rúma þrjá mánuði.

