Innlent

Ekki búið að kaupa gögn um Íslendinga í skattaskjólum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bryndís vill kaupa upplýsingarnar.
Bryndís vill kaupa upplýsingarnar. Vísir / Stefán
Enn er ekki búið að taka ákvörðun um kaup á gögnum um Íslendinga sem eiga eignir í skattaskjólum. „Málið er statt í ráðuneytinu. Það er verið að vinna að því þar,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri aðspurð um málið.

Hún segir að skattrannsóknarstjóri geti ekki tekið ákvörðun um að kaupa gögnin upp á sitt einsdæmi. „Þó ekki kæmi annað til en að embættið hefur ekki fjárheimildir til þess eða til þess að skuldbinda ríkissjóð til að greiða slíkt einhvertímann seinna,“ segir hún. „Það þarf aðkomu ráðuneytisins með einum eða öðrum hætti.“

Bryndís segist vera þeirrar skoðunar að leita eigi allra mögulegra leiða til að uppræta skattsvik. „Ég hef sagt að þessi gögn gefa einhverjar vísbendingar um það,“ segir hún og bætir við: „Mín afstaða er sú að það eigi að gera eins og hægt er að gera, með þessi gögn eins og önnur.“

Ekki er hægt að fara af stað með rannsóknir á grundvelli þeirra gagna sem embættið fékk afhent sýnishorn af gögnunum. „Þá værum við að ganga gegn því samkomulagi sem við gerðum við þennan aðila,“ segir hún. „Mér hugnast það ekki. Það var fallist á þetta með þessum hættu og þá stöndum við við það.“

Bryndís segist eiga von á að niðurstaða fáist í málið í ráðuneytinu fljótlega. „Ég á ekki von á öðru en að kemur niðurstaða í þetta innan tíðar,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×