Innlent

Veitir styrk vegna kynningar á íslenskri tónlist í Hollandi

Atli Ísleifsson skrifar
Sigtryggur Baldursson er framkvæmdastjóri Úton.
Sigtryggur Baldursson er framkvæmdastjóri Úton. Vísir/GVA
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita Útón, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, 12 milljóna króna fjárstyrk af ráðstöfunarfé sínu til að mæta kostnaði vegna þátttöku Íslands á Eurosonic-tónlistarhátíðinni í janúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að gróska íslensks tónlistarlífs hafi verið mikil á undanförnum árum og hafi hún vakið verðskuldaða athygli erlendis. „Um miðjan janúar nk. verður Eurosonic-tónlistarhátíðin haldin í Hollandi, sem er stærsta slík hátíð sem haldin er í Evrópu, og verður Ísland í öndvegi á hátíðinni. Í samræmi við það taka óvenju margar íslenskar hljómsveitir og listamenn, alls 19 talsins, þátt í hátíðinni að þessu sinni fyrir milligöngu Útón, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Sérstök umfjöllun verður um íslenska tónlist á hátíðinni m.a. með sérstökum viðburðum og pallborðum.“

Umtalsverður kostnaður fylgir svo umfangsmikilli þátttöku af hálfu Íslands á tónlistarhátíðinni og því sé mikilvægt er að styðja við þennan stóra vaxtarsprota íslenskrar menningar og „því ákvað ríkisstjórnin að veita sérstakan fjárstyrk til verkefnisins af ráðstöfunarfé sínu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×