Nú er það ekki lengur álver heldur kísilver sem virðist vera aðalorðið í iðnaðarumræðunni á Íslandi. Kísilver er að koma á Húsavík, sennilega tvö í Helguvík og á Katanesi á Grundartanga kom hópur manna saman í dag til að legga drög að kísilveri. Þrjár verksmiðjanna munu vinna kísilmálm úr kvarsi en sú á Grundartanga, á vegum bandaríska fyrirtækisins Silicor Materials, verður á næsta þrepi og hreinvinnur kísilmálm fyrir sólarflögur.

„Við ætlum að byggja fyrstu sólarkísilverksmiðjuna á grunni endurnýjanlegrar orku. Við munum auðvitað framleiða endurnýjanlega orku með því að framleiða kísil fyrir sólarsellur,” sagði Terry Jester á Katanesi í dag. Hún vonast til að framkvæmdir hefjist á Grundartanga fyrir áramót því heimurinn hrópi á sólarkísil.
„Það er mikil eftirspurn eftir þeirri afurð sem við hyggjumst framleiða hér. Við vonumst til að hefja útflutning héðan sem fyrst. Viðskiptavinir okkar eru virkilega að þrýsta á okkur að hefjast handa svo við hlökkum til að byrja á verkefninu,” sagði Terry Jester.

„Okkur er full alvara með þessu verkefni. Við erum ekki komnir til Íslands sem ferðamenn heldur vonandi til að byggja iðjuver,” sagði hann en sló þó þann varnagla að samningum væri ekki lokið. Verksmiðjunni fylgir verulegur fjöldi starfa. „360 til 400 vellaunuð og örugg störf,” sagði John Correnti.
Gísli Gíslason, hafnastjóri Faxaflóa, sagði þetta hóflega orkufrekt en mannfrekt fyrirtæki. „Og það er frábær framleiðsla sem kemur úr þessu, umhverfisvæn, og steinliggur í okkar umhverfi sem mjög áhugaverður kostur,” sagði Gísli.
Í Helguvík á Suðurnesjum hófust framkvæmdir í dag við kísilmálmverksmiðju United Silicon, eins og Stöð 2 sagði frá í gær. Fyrirtækið merkti sér iðnaðarlóðina og fyrstu vinnuvélarnar fóru af stað.

Fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, kvittaði upp á sem vitundarvottur og fagnaði því að nú stefndi í fleiri störf og nýja orkusamninga. Þetta væri gríðarlega ánægjulegt fyrir þjóðarbúið í heild. Við værum að ná að selja orku til að skapa verðmæti og auka þar með útflutningstekjur Íslendinga.
Thorsil stefnir að því að hefja framkvæmdir eftir áramót og að verksmiðjan hefji rekstur tveimur árum síðar. Athyglisvert er að Thorsil er alfarið í eigu Íslendinga. John Fenger, stjórnarformaður Thorsils, segir það tímamót. „Eftir margar stóriðjur í eigu útlendinga hér ætti þetta að vera fyrsta íslenska stóriðjan á Íslandi,” sagði John Fenger.

„Við erum komin upp úr dýpsta öldudalnum, það er alveg ljóst,” svaraði fjármálaráðherra. „Það er öll teikn þess að við séum að spyrna okkur mjög hressilega frá botninum, já.”