Skoðun

Þrjár flugur í einu höggi

Brynjar Guðnason og Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Píratar bjóða fram lista til sveitarstjórnarkosninga í fjórum sveitarfélögum í vor. Framboðin sameinast sérstaklega um stórt baráttumál: opið bókhald. En hvað þýðir það eiginlega?

Við viljum að hver einasta færsla sé birt, fyrir utan þær sem ekki er hægt að birta vegna persónuverndarsjónarmiða, og að sett verði upp vefsíða þar sem einfalt og aðgengilegt er að leita í gögnunum.

Með opnu bókhaldi sláum við ekki bara tvær heldur þrjár flugur í einu höggi.

Í fyrsta lagi sjá íbúar hvernig peningum þeirra er varið. Sveitarfélög eru rekin með okkar skattfé og við eigum rétt á að sjá í hvað peningarnir fara. Við fáum hugmyndir um betri þjónustu og fleiri tekjulindir þegar við sjáum þetta svona svart á hvítu. Íbúarýni á bókhald getur leitt til nýsköpunar í atvinnulífi og sterkari fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Í öðru lagi eykur opið bókhald aðhald. Kjörnir fulltrúar og embættismenn geta ekki falið útgjöld og líkur á spillingu og óhóflegri eyðslu minnka verulega.

Í þriðja lagi hefur opið bókhald góð áhrif á rekstur almennt. Því til stuðnings bendum við á rannsóknir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem sýna fram á samsvörun milli opins bókhalds og betra lánshæfismats – og með betra lánshæfismati fást oft betri kjör á lánum.

Píratar leggja áherslu á að aðgangur að bókhaldsgögnum sveitarfélaga verði auðveldur og þægilegur. Hægt verði að skoða og fletta upp útgjöldum eftir tegundum og dagsetningum. Greiðslur til fyrirtækja og verktaka verði opinberar.

Þetta hefur verið gert víða um heim – til dæmis hafa mörg ríki Bandaríkjanna opnað vefsetur um gagnsæi og bjóða öllum sem áhuga hafa að skoða fjármál ríkjanna í þaula.

Atkvæði til Pírata á kjördag er atkvæði með meira gagnsæi – þar sem við getum öll fylgst með útgjöldum, veitt kjörnum fulltrúum virkt aðhald, komið í veg fyrir spillingu, styrkt stöðu sveitarfélagsins og bætt þjónustu við íbúa.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×