Innlent

Gestastofan hlýtur nýsköpunarverðlaunin

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Staðarhaldarar á Þorvaldseyri hlutu í ár Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar.
Staðarhaldarar á Þorvaldseyri hlutu í ár Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar. fréttablaðið/stefán
Gestastofan á Þorvaldseyri hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2014 en alls bárust 34 tilnefningar í samkeppnina um verðlaunin sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, afhenti í gær. Í Gestastofunni geta gestir skynjað og upplifað á staðnum hvernig er að búa undir virku eldfjalli. Sögu eldgosa á Suðurlandi eru gerð skil á tímalínu, allt frá landnámi til dagsins í dag.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Gestastofan á Þorvaldseyri sé nýlegt verkefni sem náð hafi gríðarlegum vinsældum á skömmum tíma og eflt framboð afþreyingar og tilefni til dvalar á suðurströnd landsins. Jafnframt að Gestastofan hafi verið reist á undraskömmum tíma í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Meðan margir hafi séð fyrir sér landauðn og að bændur þyrftu að bregða búi hafi staðarhaldarar á Þorvaldseyri, Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg, séð möguleika í að deila ægiafli náttúru með þeim gestum sem áttu leið um Suðurströnd.

Ráðherra ferðamála veitti einnig viðtöku bókinni „Það er kominn gestur“ – sögu ferðaþjónustu á Íslandi en höfundar hennar eru Helga Guðrún Johnson og Sigurveig Jónsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×