Viðskipti innlent

Sigurður Örn nýr eigandi hjá Rétti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Örn Hilmarsson.
Sigurður Örn Hilmarsson.
Sigurður Örn Hilmarsson hefur bæst í hóp eigenda hjá Rétti – Aðalsteinsson & Partners ehf., en hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu af lögmannsstörfum og hefur starfað á stofunni síðan árið 2009. Sigurður lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi sama ár.

Sigurður hefur setið í stjórnum ýmissa félaga og samtaka, en hann var Inspector scholae í MR árið 2002-2003, oddviti Vöku – félags lýðræðislegra stúdenta 2006-2007 og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2006-2007. Þá hefur Sigurður setið í stjórn Íslensk-Japanska félagsins.

Sigurður kennir námskeið í mannréttindum við lagadeild Háskólans á Bifröst og réttarfar við Endurmenntun HÍ.

 

Helstu starfssvið Sigurðar eru málflutningur, fjármuna- og fyrirtækjaréttur, fjármagnshöft og gjaldeyrismál, gjaldþrotaréttur og bústjórn, verktakaréttur, mannréttindi, skaðabótaréttur og stjórnsýsluréttur auk verjanda- og réttargæslustarfa.

Hjá Rétti starfa nú níu lögmenn og eru eigendur nú fjórir, þar af tveir með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti en stofan var stofnuð af Sigríði Rut Júlíusdóttur og Ragnari Aðalsteinssyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×