Innlent

Mælingar fjarskiptafyrirtækja á gagnamagni ekki vottaðar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir / Daníel
Mælingar fjarskiptafyrirtækja á gagnanotkun viðskiptavina sinna á netinu eru ekki vottuð eða löggild. Engir viðurkenndir staðlar eða reglur gilda hér á landi um tæknilegar kröfur til slíkra mælinga. Er það vegna þess hve tæknilega flókin úttekt á mælingunum er að mati Póst- og fjarskiptastofnunnar.

Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Pírata, um mælingar fjarskiptafyrirtækja á gagnamagni í internetþjónustu. Í svarinu kemur einnig fram að það komi til greina að reglur um þessar mælingar skuli útfærðar frekar.

Þrátt fyrir að ekki sé búið að löggilda eða votta mælingarnar gilda um þær reglur evrópska fjarskiptaregluverkið frá árinu 2009 en þar eru heimildir til eftirlitsstjórnvalda, það er Póst- og fjarskiptastofnunnar, um að setja reglur og kröfur um lágmarksgæði IP-fjarskiptaþjónustu.

Þá gilda einnig lög um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn um gjaldmælingar vegna notkunar á fjarskiptaþjónustu hér á landi. „Sem fyrr segir er um flóknar og sértækar mæliaðferðir að ræða sem hvorki hafa verið útfærðar í stöðlum né reglum sem hægt er að byggja slíkt eftirlit á,“ segir í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×