Innlent

Áfram í gæsluvarðhald vegna gruns um ofbeldi, líflátshótanir og nauðgun

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni til 25. febrúar sem grunaður er um að hafa haldið barnsmóður sinni og tveggja ára barni þeirra nauðgum á heimili konunnar í Mosfellsbæ á jólanótt.

Konan náði að komast úr íbúðinni og til nágranna síns sem óskaði eftir aðstoð lögreglu. Maðurinn var þá staddur í íbúðinni ásamt barninu. Konan sagði barnsföður sinn hafa ráðist á sig, meðal annars lamið hana, borið hníf að hálsi hennar og hótað henni og barninu lífláti. Hann hafi einnig beitt hana grófu kynferðislegu ofbeldi.

Maðurinn kannast við að hafa beitt konuna ofbeldi en segir að hann hafi haft samræði við hana með hennar samþykki.

Maðurinn var mjög æstur þegar lögreglan kom á vettvang en róaðist þegar lögreglan ræddi við hann í gegnum glugga á íbúðinni. Hann fór þá inn í herbergi með barnið og sagðist ætla að svæfa það. Þegar hann kom til baka úr herberginu var hann aftur orðinn mjög æstur og þegar lögreglan ræddi við hann í síma henti hann honum í gólfið.

Hann náði í tvo hnífa og hótaði að drepa barnið. Hann hélt á hnífunum og barninu í einu en fór aftur með barnið inn í herbergi. Hann hótaði að drepa einn lögreglumanninn og fjölskyldu hans. Sérsveit ríkislögreglustjóra tókst að lokum að komast inn í íbúðina og yfirbuga manninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×