Erlent

Hefur tapað átta milljón króna í fjárhættuspilum í ár

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata.
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata. Vísir/AFP
Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, hefur tapað rúmum átta milljónum króna í fjárhættuspilum á netinu það sem af er ári. Sænska ríkisútvarpið hefur komist yfir reikninga Åkessons og greinir frá.

Åkesson staðfestir að hann stundi fjárhættuspil og að hann spili gjarnan með sambýliskonu sinni. „Við spilum af og til. Okkur þykir þetta skemmtilegt, unnum háa upphæð og við höfum haldið áfram að spila síðan.“

Í fréttinni segir að Åkesson hafi í spilum sínum tapað meiru en hann hafi grætt. Spilafíkn Åkessons hefur verið öðrum í flokknum kunnugt um nokkurt skeið. Martin Kinnunen, talsmaður Svíþjóðarflokksins, segir þó að litið sé á málið sem einkamál Åkessons. „Þetta hefur ekki áhrif á stjórnmálin.“

Svo að sú staðreynd að Jimmie Åkesson hafi spilað fyrir hálfa milljón [sænskra króna] í fjárhættuspilum dregur ekki úr trausti á getu Svíþjóðardemókrata til að halda utan um ríkisfjármálin?

„Nei,nei, þetta er einkamál. Ef Jimmie Åkesson hefði skuldsett sjálfan sig um háar fjárhæðir þá væri hægt að ræða þetta. En það liggur ekkert fyrir um slíkt. Hann veit ekki sjálfur hvort hann hafi tapað eða grætt á þessu, en þetta snýst ekki um háar upphæðir,“ segir Kinnunen.

Jakob Jonsson, einn af helstu sérfræðingum Svíþjóðar um spilafíkn, segir að maður sem hagi sér svona þurfi á hjálp að halda. „Þetta hljómar eins og mikil ofneysla og ber þess skýr merki um mann sem hefur ekki stjórn á hegðun sinni.“

Þingkosningar í Svíþjóð fara fram á sunnudaginn og hafa Svíþjóðardemókratar, sem vilja hefta straum innflytjenda til Svíþjóðar, mælst með um níu prósenta fylgi í könnunum.

Flokkurinn stendur utan bandalaga en gæti verið í oddastöðu að kosningum loknum þó að aðrir flokkar hafi lýst því skýrt yfir að þeir komi ekki til með að starfa með Svíþjóðardemókrötum.


Tengdar fréttir

Svíar kjósa þing á sunnudaginn

Hægri stjórn Fredriks Reinfeldt hefur mælst með lítið fylgi í allt sumar, en hefur verið að styrkjast núna á lokasprettinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×