Lífið

Spiluðu sama lagið í sex klukkutíma

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Ragnar Kjartansson frumsýndi vídeóverkið sitt A Lot of Sorrow í Luhrine Augustine Bushwick-galleríinu í New York í gær. Verkið er upptaka af gjörningi Ragnars sem gerður var í samstarfi við hljómsveitina The National á MoMA-safninu í New York. Þá spilaði hljómsveitin lagið sitt Sorrow í sex klukkustundir samfleytt.

"Ég var ógeðslega ánægður með þetta, hvað annað getur maður sagt?" segir Ragnar í samtali við Vísi. "Þetta er sex klukkutíma löng rokkbíómynd. Verkið var eiginlega gert með það að markmiði að búa til þessa mynd, því það var svo mikill áhugi á því að búa til rokkmynd sem hverfist um eitt lag. Eitt lag verður að einhverjum massa, verkið gengur út á að gera skúlptúr eða málverk úr tónlist."

Ragnar segir að myndin hafi haft alla estetík dæmigerðrar rokktónleikamyndar, "nema það er alltaf sama lagið og alltaf sömu aðstæðurnar". Ragnar segir að köppunum í The National hafi alls ekki leiðst það að spila sama lagið í sex tíma. "Þeir héldu alltaf áfram að spila og það fór aldrei í neitt rugl, þeir verða reyndar svolítið "kreisí". Þetta var rosa mikið í öldum, stundum verða þeir rosalega tilfinningasamir, stundum missa þeir hálfpartinn einbeitinguna en þeir spila þetta alltaf eins og á popptónleikum."

Ragnar segir að kveikjan að hugmyndinni hafi verið tónleikar Mínuss með Curver Thoroddsen í Hafnarhúsinu árið 2003 þar sem var líka spilað í afar langan tíma. "Það var dálítið kveikjan að hugmyndinni en síðan þá hefur þetta verið í maganum lengi. Munurinn er að það var spuni á meðan þetta var í rauninni mjög formfast."

Gítarleikari The National, Aaron Dessner, sagði í viðtali við Guardian að gjörningurinn hefði verið mögnuð upplifun fyrir hljómsveitina. "Ég held að öllum hafi fundist þetta vera einn besti dagur í lífi hljómsveitarinnar, þegar kemur að því að gera eitthvað merkingarfullt og undarlega stórbrotið," sagði hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×