Innlent

Íslendingar í Sotsjí sendi skilaboð um réttindi hinsegin fólks

Samúel Karl Ólason skrifar
Illugi Jökulsson og Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna ´78.
Illugi Jökulsson og Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna ´78. Vísir/GVA
Fulltrúar Samtakanna ´78 og Hinsegin daga munu klukkan þrjú í dag afhenda Illuga Gunnarssyni, Mennta- og menningarmálaráðherra, kveðjugjöf fyrir för hans á Vetrarólympíuleikana í Sotsjí í Rússlandi.  Afhendingin fer fram í Mennta- og menningamálaráðuneytinu, Sölvhólsgötu 4.

„Það er mikilvægt að Íslendingar láti ekki tækifærið fram hjá sér fara til að halda á lofti merkjum réttinda hinsegin fólks. Í Rússlandi mælist lagaleg og félagsleg staða þess þjóðfélagshóps afar veik og hefur snarversnað eftir að Vladimir Putin tók aftur við forsetaembættinu árið 2012.

Löggjöf sem sett var 2013 hefur þau áhrif að upplýsingamiðlun um hinsegin málefni er bönnuð en hún er grundvallaratriði í baráttu hinsegin fólks. Setning laganna hefur hrint af stað öldu hatursglæpa gegn hinsegin fólki í Rússlandi,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þá er bent á að fjöldi stjórnmálaleiðtoga í heiminum hafi ákveðið að fara ekki til Sotsjí. „Þetta er augljós tjáning afstöðu gegn mannréttindabrotum í Rússlandi. Samtökin ´78 ályktuðu í janúar um að íslenskt stjórnmálafólk ætti með sama hætti að láta sína afstöðu í ljós. Nú er komið á daginn að íslenskt stjórnmálafólk, bæði ráðherrar og forseti, velja að mæta á Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra.“

Samtökin ´78 gera þá kröfu að þau noti tækifærið til að senda markviss skilaboð um réttindi hinsegin fólks, því annað væri meðvirkni með mannréttindabrotum.

„Forsvarsfólk Samtakanna og Hinsegin daga hlakkar til að hitta Illuga í dag og vonar að hann taki einarða afstöðu í Sotsjí. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðaherra hefur nú þegar ákveðið sambærilegt kveðjustefnumót áður en hún heldur á Ólympíumót fatlaðra í mars. Á skrifstofu forsetaembættisins fengust þær upplýsingar að forsetinn sé erlendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×