Innlent

Sjomlar hafa safnað milljón fyrir Mæðrastyrksnefnd

Stefán Árni Pálsson skrifar
Brynjólfur Löve fer fyrir Sjomlunum í söfnuninni.
Brynjólfur Löve fer fyrir Sjomlunum í söfnuninni. vísir/aðsend/sjomlatips
Facebook-hópurinn Sjomlatips! hefur náð að safna yfir einni milljón króna sem drengirnir hyggjast gefa Mæðrastyrksnefnd fyrir jólin. Yfir átta þúsund karlmenn eru meðlimir í hópnum en hann er lokaður.

Um er að ræða einskonar spjallhóp þar sem allskyns málefni eru rædd. Þar spretta til að mynda upp umræður um hitt kynið, mat og tómsstundir.

„Ég byrjaði þessa söfnun fyrir einni viku og þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir Brynjólfur Löve Mogensson, skipuleggjandi átaksins. „Söfnunin stendur yfir til 10. desember og þá munum við afhenda formanni Mæðrastyrksnefndar fjárhæðina.“

Brynjólfur segir að nú sé upphaflegu markmiði náð en klárlega sé tími til að gera enn betur.

„Það er einnig í gangi söfnun hjá stelpusíðunni Beauty Tips og gæti vel verið að hóparnir komi sér saman og afhendi peninginn í þetta frábæra málefni.“

Hann segir að rætt hafi verið um það innan Sjomlatips að jafnvel færi allt umfram einni milljón til Facebook-hópsins Matargjafir.

„Við eigum eftir að ákveðna hvernig við afhendum þetta, gæti verið að maður reyni að redda svona stórri ávísun,“ segir Brynjólfur.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á;

Kennitala - 170889-3399, bankanúmer,  0111-05-261952.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×