Innlent

Gagnrýni siðfræðinga ómakleg

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, er á meðal þeirra 36 sem standa að yfirlýsingunni.
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, er á meðal þeirra 36 sem standa að yfirlýsingunni. Vísir/Vilhelm
Hópur vísindamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna lífsýnasöfnunarinnar Útkall í þágu vísindanna á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Landsbjargar. Kemur yfirlýsingin í kjölfar yfirlýsingar níu fræði- og vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Akureyri sem gagnrýna framkvæmd söfnunarinnar.

„Síðastliðin sautján ár hafa vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) í samstarfi við vísindamenn á Landspítala, í læknadeild og innan fjölmargra annarra stofnana hérlendis og erlendis náð ótrúlegum árangri í að varpa ljósi á erfðafræði margra sjúkdóma. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta samstarf vísindamanna ÍE og annarra í íslensku vísindasamfélagi hefur gert það að verkum að Ísland leiðir nú heiminn á flestum sviðum mannerfðafræði,“ segir í yfirlýsingu vísindamannanna.

Blása vísindamennirnir á þá gagnrýni að skemmtikraftar séu fengnir til að auglýsa söfnunina.

„Hvatning annarra í samfélaginu, svo sem listamanna og stjórnmálamanna er einnig virðingarverð. Engin ástæða er til að tortryggja slíkan stuðning.“

Þá er gagnrýnt að átakinu sé blandað við góðgerðarstarfsemi.

„Gagnrýni siðfræðinga á hlut Landsbjargar í söfnun sýnanna er að okkar mati einnig ómakleg. Alvanalegt er í vísindarannsóknum að þátttaka sé þökkuð, en hún á þó ekki að skapa óeðlilegan þrýsting á þá sem annars myndu ekki vilja gefa lífsýni,“ segir í yfirlýsingunni þar sem Íslendingar eru hvattir til að taka þátt. „Án hins almenna borgara verða þessar rannsóknir ekki gerðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×