Lífið

Heitar lummur geta breytt gangi leiksins

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Embla með spilin sem eru myndskreytt af henni sjálfri.
Embla með spilin sem eru myndskreytt af henni sjálfri. Vísir/Einkasafn
„Íslendingar eru mikil spilaþjóð og mig langar svo koma þessum litlu, stuttu spilum meira inn, en þau geta enst svo lengi og eru meðfærileg“, segir Embla Vigfúsdóttir listrænn leikjahönnuður og höfundur fjölskylduvæna jólaspilsins „Hver stal kökunni úr krúsinni?“.

Hugmyndina að spilinu fékk Embla frá spili sem hún átti sjálf og að eigin sögn, kláraði alveg. Hvenær hún byrjaði að gera þetta spil man hún ekki, en allt í einu hafi hún verið búin að gera prótótýpu af spilinu. „Svo tók ég hana bara með mér hvert sem ég fór og fékk vini mína til að prófa. Þannig að það tóku allir þátt í að þróa þetta,“ segir Embla.

Spilið sjálft er spilastokkur og er hvert spil mismunandi íslensk jólakaka og svo er ein tóm krús. Hver kaka hefur mismunandi hæfileika og snýst spilið um að finna þann sem er með tómu krúsina. Til að hrista upp í leiknum eru nokkur atvikaspil í bunkanum sem kallast lummur. Lummurnar hafa mismunandi hlutverk, þær geta til dæmis komið þér aftur inn í spilið eða snúið spilahringnum við.

Hér má sjá kökurnar á spilunum; kleinur, lakkrístoppa, randalínur og fleira.Vísir/Einkasafn
„Mig langar svo að koma þessu út fyrir jólin, ég er viss um þetta verði rosa fín möndlugjöf. En að framleiða svona kostar sitt,“ segir Embla sem ætlar að setja af stað söfnun fyrir spilinu á Karolinafund strax í næstu viku. „Ég er að gera video fyrir spilið sem kemur inn á Karolinafund síðuna, en ég óskaði eftir aðstoð við að gera myndbandið inni á síðunni Íslendingar í Kaupmannahöfn á facebook, þar sem ég er búsett. Það voru ótrúlega margir sem buðu fram aðstoð sína sem er alveg frábært,“ segir Embla. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×