Innlent

Megn óánægja með gjaldtöku á Geysissvæðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Óskar
Forsvarsmenn ferðaskrifstofa hér á landi eru ekki sáttir við gjaldtöku á Geysissvæðinu. Töluvert er um að ferðamenn borgi sig ekki inn á svæðið heldur séu fyrir utan það og skoði úr fjarska eða haldi hreinlega áfram ferð sinni, án þess að stoppa.

Starfsmaður Gullfosskaffis segir að mun fleiri ferðamenn hafi komið á kaffihúsið á laugardaginn, miðað við aðra laugardaga.

Haraldur Teitsson hjá Hópferðabílum Teits Jónassonar segir megna óánægju vera með þetta fyrirkomulag.

„Þetta er náttúrulega enginn fyrirvari. Við erum að reyna segja stórum hópum sem við eigum von á frá þessu og það er ofsalegur pirringur yfir þessu. Það er aðallega fyrirvaraleysið sem er vandinn. Svo finnst fólki þetta líka tiltölulega ósanngjarnt. Það hefði verið auðveldara ef tíminn hefði verið lengri,“ segir Haraldur.

Haraldur var sjálfur í Haukadal í gær og segir að þar hafi skapast stórhætta vegna ferðalanga sem gengu með veginum og tóku myndir inn á svæðið.

„Ég var bara að hugsa að það væri spurning um hvenær ekki hvort, það verður slys þarna.“

Hann segir þó að vonandi muni þetta hrista upp í hlutunum því aðstöðuleysi hafi hingað til verið algjört. „Ég skil ekki þetta offors, að taka 600 krónur. Af hverju ekki að byrja með eina evru eða tvær. Ef þetta á bara að vera til þess að laga svæðið,“ segir Haraldur.

Þórir Garðarsson, markaðs- og sölustjóri Iceland Excursions Allrahanda, segir eitthvað vera um að ferðamenn yfirgefi ekki rúturnar við Geysissvæðið.

„Það er alls ekki eitthvað skipulagt andhóf að okkar hálfu að hvetja fólk til að fara ekki út úr bílnum eða inn á svæðið. Það er þó fólk sem hefur engan áhuga á að fara út þarna því það getur ekki farið inn á svæðið og sér ekki virðisaukann í því að kaupa sig inn á svæðið,“ segir Þórir.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Garðar Eiríksson, talsmann Landeigendafélags Geysis, sem segir að um þúsund manns hafi heimsótt svæðið á laugardaginn og flestir hafi greitt aðgangseyrinn. Þann dag innheimti félagið um 500 þúsund krónur.

Þórir segir þó að um 2.000 manns hafi farið um svæðið á laugardaginn. Yfir þúsund manns hafi farið með rútum samkvæmt talningu og kannanir sýni að um 45 prósent ferðamanna ferðist í rútum um svæðið á þessum árstíma.

„Bara við og samkeppnisaðilarnir voru með yfir þúsund farþega. Við vitum hve mikið af fólki er á Gullhringnum,“ segir Þórir. „Á laugardaginn voru um 2000 manns og þeir segjast hafa rukkað inn fyrir 500 þúsund sem er um 40 prósent af farþegum sem þarna eru.“

Þá setur Þórir einnig út á ummæli Garðars um að Allrahanda sé eina fyrirtækið sem sé ósætt um fyrirkomulagið og hafi tjáð sig um það. „það er óvæntur heiður fyrir okkur, en hann er ósanngjarn því mörg önnur fyrirtæki hafa tjáð sig við þá. Þetta er bara spurningin á hverja þeir hlusta,“ segir Þórir.






Tengdar fréttir

Mikilvægt að finna heildstæða lausn

Helga Árnadóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir mikið í húfi og finna þurfi heildstæða lausn á gjaldtökumálinu.

Gjaldtaka hafin við Geysi

Gjaldtaka fyrir heimsóknir á hverasvæðið við Geysi er hafin en landeigendur hófu í morgun að rukka 600 króna gjald fyrir inngöngu á svæðið.

Vísa í 120 ára dæmi um gjald við Geysi

Heimild til að innheimta gjald fyrir aðgang að Geysissvæðinu finnst í skjölum frá 1894 að sögn landeigenda. Þeir hafna lögbannskröfu ríkisins á gjaldheimtu af ferðamönnum. Ríkið bauðst til að fjármagna tugmilljóna uppbyggingu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×