Innlent

Myndar 1/1000 af íbúafjölda Íslands

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Varya Lozenko er rússneskur ljósmyndari sem á sér það markmið að mynda 1/1000 af íbúafjölda Íslands. Verkefni hennar ber yfirskriftina 320 Íslendinga verkefnið. Ástæða fjöldans er að hún vill að hver einstaklingur sem hún myndar standi fyrir hverja þúsund Íslendinga.

„Ég vissi ekkert um landið sjálft en vissi að Björk væri þaðan. Ég heillaðist samstundis af landinu. Ég heillaðist af íbúum landsins, hversu friðsælt það er og hversu vel náttúran hefur verið varðveitt. Mér þótti hver einasti einstaklingur sem ég hitti einstakur og ákvað þá að hefja þetta verkefni.“

Fyrirsæturnar velur Varya af handahófi. Hún tekur myndir af fólki á öllum aldri og úr ólíkum þjóðfélagshópum. Myndatökurnar eru óskipulagðar og engum er stillt upp fyrir tökurnar.

Viktor Ragnar Þorvaldsson, íbúi á Höfn í Hornafirði og þjónn á Kaffi Horninu, er meðal þeirra sem varð á vegi Varyu.

„Hún átti leið hjá Kaffi Horninu. Hún fékk sér kaffi og spurði svo hvort hún mætti taka mynd af mér. Stuttu síðar tók hún mynd af fjölskyldu bróður míns í Vík í Mýrdal. Það var algjör tilviljun.“ segir Viktor.

Varya er hálfnuð með verkefni sitt og stefnir hún á að klára það í vor og að verkefninu loknu ætlar hún að opna ljósmyndasýningu.

Hægt er að skoða myndir Varyu á Facebook síðu hennar.

Að lokum er Varya spurð, eins og aðrir erlendir ferðamenn sem koma til Íslands; Hvernig líkar þér Ísland?

„Ísland og Íslendingar. Ég elska ykkur.“ segir Varya.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×