Skoðun

Ekki afskrifa Dögun í Reykjavík

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar
Ef skoðanakannanir gefa rétta vísbendingu á Dögun í Reykjavík á brattann að sækja í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Ljóst er þó að talsverður fjöldi íhugar að styðja okkur og á framboðsfundum þar sem við höfum fengið tækifæri til að kynna málstað okkar hefur fulltrúum Dögunar almennt verið mjög vel tekið. Það á til dæmis við um íbúafund í Úlfarsfelli þar sem skipulagsmál brenna á íbúum. Undirritaður kom þar á framfæri þeirri stefnu Dögunar að íbúarnir eigi rétt á því að byggðin verði fullfrágengin á borð við önnur hverfi Reykjavíkur. Útlistaði ég áherslur okkar í þessu efni.

Þótt íbúafundurinn í Úlfarsfelli hafi verið vel sóttur jafnast fjöldinn ekki á við allt það fólk sem fær Fréttablaðið inn um lúguna á morgni hverjum.



Sl. fimmtudag kynnti blaðið afstöðu oddvita framboðanna í Reykjavík til skipulagsmála í Úlfarsfelli – allra nema Alþýðufylkingarinnar og Dögunar í Reykjavík.

Afstaða fjölmiðla getur skipt sköpum fyrir framboð til kosninga. Ég get mér þess til, að Fréttablaðið réttlæti afstöðu sína með vísan til þess að Dögun í Reykjavík mælist enn lágt í skoðanakönnunum. Þar er þó um hálfsannleik að ræða því fréttamenn blaðsins hafa nánast aldrei gefið lesendum kost á að kynnast framboðinu og stefnumálum þess á síðum Fréttablaðsins! Að því er virðist hafa fulltrúar framboðsins verið kerfisbundið sniðgengnir í þessum ágæta fjölmiðli.

Enn eru nokkrir dagar til kosninga og sagan kennir að fylgi getur hæglega flust til á skömmum tíma. Mér finnst mikilvægt að áherslur og baráttumál allra framboða fái sanngjarna og góða umfjöllun í útbreiddustu fjölmiðlum landsins – hvort sem um er að ræða afstöðu til leikskólamála, lýðræðismála, húsnæðismála, innflytjenda, flugvallarins, gjaldskrármála eða annars sem á kjósendum brennur. Kjósendur eiga rétt á því.

Ef Dögun í Reykjavík er látin njóta sannmælis í fjölmiðlum, þá leyfi ég mér að fullyrða að allt getur gerst. Því segi ég: Ekki afskrifa Dögun í Reykjavík!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×