Brittany Wilson, bandaríski bakvörður kvennaliðs KR, meiddist illa í tapinu á móti Snæfelli í 2. umferð Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Wilson var búin að skora 18 stig á 20 mínútum þegar hún meiddist í þriðja leikhlutanum eftir að hafa minnkað muninn í sex stig, 33-39. Það er óttast að Brittany Wilson hafi slitið hásin og reynist svo rétt þá verður hún ekki meira með KR-liðinu í vetur.
KR-liðið tapaði síðustu 18 mínútum leiksins án hennar 21-37. KR-liðið tapaði naumlega á móti Val í fyrstu umferðinni þar sem Brittany Wilson var nálægt þrennunni með 17 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.
Í fyrstu tveimur leikjunum hefur KR unnið með þremur stigum þær mínútur sem Brittany Wilson hefur spilað en tapað með 28 stigum þegar hún hefur verið á bekknum. Það er því ljóst að það væri mikið áfall fyrir KR-konur að missa þennan öfluga bakvörð.

