Innlent

Sífellt fleiri fá lús vegna „selfie“-mynda

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Oft eru fleiri með á myndinni en augað nemur.
Oft eru fleiri með á myndinni en augað nemur. vísir/getty
Séfræðingur í meðferð höfuðlúsar í Kaliforníu fullyrðir að vinsældir „selfie“-mynda, eða sjálfsmynda, eigi stóran þátt í því að sífellt fleiri unglingar fái lús.

Í þeim tilfellum þar sem fleiri en einn er á myndinni eru fyrirsæturnar gjarnan með höfuðin þétt saman og fer lúsin þannig á milli.

„Vanalega eru þetta yngri börn en núna erum við farin að sjá aukningu meðal unglinga,“ segir sérfræðingurinnMarcy McQuillan. „Foreldrar og börn þurfa að vera vakandi. Sjálfsmyndirnar eru skemmtilegar en geta haft þessar afleiðingar.“

Ása St. Atladóttir, verkefnisstjóri á sóttvarnarsviði landlæknisembættisins, segir töluverða aukningu hafa orðið á tilfellum hjá börnum og unglingum hér á landi undanfarið eitt og hálft ár. Hún segir þó að erfitt sé að segja til um orsakirnar.

„Það er nú ómögulegt að segja. Þetta er auðvitað alveg týpískt sem gæti valdið smiti. Kollar að snertast og þá skríða þær af einum kolli yfir á annan,“ segir Ása. Hún segir tuttugu prósenta aukningu hafa orðið á tilfellum undanfarið eitt og hálft ár.

„Við höfum mun betri tölur um litla krakka. En ég mæli með því að það sé til lúsakambur á hverju heimili þar sem höfuðlús getur lagst á alla.“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, sviðsstjóri skólasviðs hjá Miðstöð heilsuverndar barna, tekur í sama streng.

„Við höfum reyndar ekki aldursgreint þetta sérstaklega en síðasta skólaár varð töluverð aukning. Lúsin kemur í bylgjum og nú er hún í uppsveiflu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×