Fótbolti

Falleg kveðja frá Verona til Emils vegna andláts föður hans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Hallfreðsson er í miklum metum hjá Hellas Verona.
Emil Hallfreðsson er í miklum metum hjá Hellas Verona. vísir/getty
Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, missti föður sinn á dögunum og var þess vegna ekki í leikmannahópi Hellas Verona gegn Torino í ítölsku A-deildinni um helgina.

Fram kemur á heimasíðu ítalska liðsins að Andrea Mandorlini, þjálfari Verona, hafi aflýst fréttamannafundi fyrir leik þess gegn Genoa annað kvöld með leyfi félagsins.

Þá hefur Verona beðið ítalska knattspyrnusambandið um leyfi fyrir því að leikmenn liðsins megi bera sorgarbönd vegna andláts föður Emils í leiknum annað kvöld.

Á heimasíðuna er rituð falleg kveðja til Emils á ítölsku þar sem sagt er að allir hjá félaginu; frá forseta þess til allra annarra starfsmanna, standi með honum í gegnum þessa erfiðu tíma.

„Við erum með þér, Emil. Þessar fréttir eru skelfilegar fyrir fjölskyldu þína - okkar fjölskyldu - sem þekkir þig svo vel. Skyndilegt fráfall föður þíns, Hallfreðs, fær hjörtu okkar til að bresta. Það eru engin orð sem fá þessu lýst - allt virðist meiningarlaust.

Við erum með þér, Emil. Við viljum að þú finnur fyrir ást okkar og styrk í þínu hjarta. Það standa allir með þér; forseti félagsins og allir starfsmenn þess. Við stöndum með þér og fjölskyldu þinni.“

Öll kveðjan á ítölsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×