Afskekkt eyðibýli, sem áður dröbbuðust niður sökum þess að enginn vildi búa þar, hafa hvert af öðru lifnað á ný þegar borgarbúar, gjarnan afkomendur síðustu bænda, uppgötva þau sem verðmætar uppsprettur gæðastunda í frítíma. Eitt dæmi um þetta frá Vestfjörðum var sýnt í fréttum Stöðvar 2, jörðin Bær á Bæjarnesi við norðanverðan Breiðafjörð, en þaðan er um tveggja stunda akstur í næstu verslun.
Bær á Bæjarnesi fór í eyði árið 1962 og var gamla íbúðarhúsið komið í niðurníðslu þegar hjónin Hjalti Einarsson og Kristjana G. Jóhannesdóttir fóru að gera það upp fyrir rúmum tuttugu árum. Kristjana er fædd og uppalin á Bæ en Hjalti er frá Reyðará á Siglunesi. Þau giska á að þau verji um 40 dögum þar á hverju sumri. Það breyti engu þótt langt sé í þjónustu og stundum rok og rigning.
Hjalti Einarsson og Kristjana G. Jóhannesdóttir á veröndinni á Bæ á Bæjarnesi. Mynni Kollafjarðar í baksýn.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.Þarna er Hjalti með sitt eigið verkstæði í skemmu en hjónin hafa nú eftirlátið börnum sínum rekstur Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar, sem þau stofnuðu í bílskúr í Hafnarfirði fyrir 43 árum. Það er nú orðið 550 manna fyrirtæki, og það stærsta á sínu sviði á Íslandi.
Nánar verður rætt við Hjalta og Kristjönu og fjallað um lífið á Bæjarnesi fyrr og nú í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, kl. 19.25.
Íbúðarhúsið á Bæ. Búsetu lauk þar árið 1962.Mynd/Úr einkasafni.