Skoðun

Heilbrigðiskerfið var aðlagað að nýjum spítala

Auðbjörg Reynisdóttir skrifar
Á sama tíma og landsmenn fengu að sjá fallegar teikningar af nýjum spítala var farið í að undirbúa heilbrigðiskerfið fyrir nýja byggingu. Nýjar nefndir voru skipaðar til að aðlaga heilbrigðisþjónustuna að starfsemi nýs Landspítala, þær skrifuðu skýrslur um að þjónustan úti á landi væri svona og hinsegin – ógnaði öryggi og að þessi þjónusta gæti líka verið veitt á Landspítalanum, „skýrslum“ reiknaðist til að þjónustan á Landspítalanum yrði ódýrari vegna samlegðaráhrifa, samþjöppunar þekkingar, betri nýtingaraðstöðu og nálægðar við Háskólann. Álitsgjafar í hvítum sloppum birtust í fjölmiðlum við öll tækifæri og komu þessum boðskap á framfæri.

Markvisst og hljóðlega „aðlöguðu“ ráðamenn heilbrigðiskerfið, sannfærðir um að lengi taki Landspítalinn við: heilbrigðislöggjöf var breytt, smærri stofnanir sameinaðar þeim stærri og þjónusta bætt með því að leggja hana af. Þannig hvarf svo lítið bæri á ódýrasta heilbrigðisþjónustan, úti á landi var skurðstofum lokað, landlæknir fækkaði fæðingarstöðum og farandsérfræðingar hættu ferðum sínum.

Á landsbyggðinni mótmæltu íbúar skertu öryggi og ráðherrar tóku við undirskriftum án þess að taka þær til greina – því umræðan þarf að vera á faglegum nótum en ekki á villigötum.

Þingmenn tóku síðasta skrefið í aðlögun heilbrigðiskerfisins, þegar þeir samþykktu fjárlög fyrir þetta ár. Þegar fjárlög voru lögð fram varð hávær umfjöllun um 1.200 kr. legudagagjöld á LSH. Í annarri umræðu var fundin lausn með því að strika legudeildir úti á landi út af fjárlögum, LSH fengi upphæðina sem vantaði.

Í fjárlögunum sem voru samþykkt fyrir þetta ár var ákveðið að „forgangsraða fjármunum í rekstur Landspítalans“, það var gert með því að strika líka heilsugæsluna úti á landi af fjárlögum.

Sjúklingar á teikniborðinu?

Með þessari „forgangsröðun fjármuna“ var heilbrigðisþjónustan einfölduð til muna. Á landinu öllu eru nú tvö sjúkrahús: Annað í Reykjavík og hitt á Akureyri. Í hverjum landsfjórðungi eru samtals fimm heilbrigðisstofnanir. Í sumar voru landsbyggðarsjúkrahúsin ásamt heilsugæslunni (sem voru strikuð út af fjárlögum og þar með ekki til) sameinuð með reglugerð og um mánaðamótin hófu nýráðnir forstjórar störf.

Sjúkrahúsið, sem samkvæmt skýrslum á að taka við þjónustunni sem búið er að leggja af, er aðeins til á teikniborðinu. Á Landspítalanum eru allar deildir yfirfullar af sjúklingum, sem stjórnendur spítalans líta á sem fráflæðisvanda. Sjúkrahúsin um land allt standa tóm og sjúkraflutningar eru meiri en nokkru sinni fyrr.




Skoðun

Sjá meira


×