Lífið

Kynjaskekkja í Skaupinu

Kristófer Dignus leikstýrði Áramótaskaupinu og var einnig meðal handritshöfunda.
Kristófer Dignus leikstýrði Áramótaskaupinu og var einnig meðal handritshöfunda. Fréttablaðið/Stefán
„Of mikil áhersla var á nokkra karlleikara og almennt voru stelpur í frekar uppburðarlitlum hlutverkum,“ skrifar Ragnar Þór Pétursson í bloggfærslu um Áramótaskaupið. Hann segir að í Skaupinu hafi verið „fá kvenhlutverk og flest frekar fígúruleg“.

Fréttablaðið taldi talandi kven- og karlhlutverk í þættinum og fékk út að karlar hefðu verið í um tvöfalt fleiri hlutverkum en konur. Karlhöfundar Áramótaskaupsins voru líka tvöfalt fleiri en kvenhöfundar. Hins vegar stenst Áramótaskaupið Bechdel-prófið. Kvikmynd eða sjónvarpsþáttur stenst Bechdel-prófið ef tvær kvenpersónur tala saman um eitthvað annað en karlmenn að minnsta kosti einu sinni. Fáar kvikmyndir standast Bechdel-prófið.

Fréttablaðið hafði samband við Kristófer Dignus, leikstjóra Áramótaskaupsins, og spurði hvort eitthvað hefði verið hugsað um kynjahlutföll við gerð þáttarins.

„Ég pæli aldrei í svona málum. Ég er bara að reyna að búa til fyndið Skaup. Fyrsta manneskjan sem sést í Skaupinu er kona. Maður er að hugsa um allt aðra hluti en kynjahlutföll þegar maður er að gera grín. Ég vil hins vegar benda fólki sem er að gagnrýna þetta á að þegar Steindi fór til himna tók Guð á móti honum og Guð var svört kona,“ segir Kristófer.

Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands, hefði viljað að handritshöfundar Áramótaskaupsins væru meðvitaðri um stöðu kvenna.

„Hlutfallið í Skaupinu var ekki svo fjarri hlutföllum viðmælenda í fjölmiðlum, en samkvæmt fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu eru karlar um 70 prósent viðmælenda í ljósvakaþáttum og í fréttum, á meðan kvenkyns viðmælendur eru 30 prósent. Þetta var mælt á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013,“ segir Steinunn. 

„Þessi skekkta mynd berst víða og meðal annars í Áramótaskaupið. Svo er oft gert grín í Skaupinu að valdamiklum aðilum í samfélaginu – sem eru oftar karlar. Konur voru samt að gera fullt af hlutum á árinu sem eru bæði fyndnir og hægt er að gera grín að – að ég tali ekki um þær ádeilur sem hægt er að gera á kynjamisrétti í samfélaginu. Auðvitað er erfitt að gera öllum til geðs í Skaupinu. En það væri óskandi að höfundar hefðu verið aðeins meðvitaðri um að myndin er skekkt og það er okkar allra að rétta hana eins og við mögulega getum. Við berum öll ábyrgð á að laga skekkjuna,“ bætir Steinunn við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×