Innlent

Kartöfluuppskeran klárast fyrr en áður

Eva Bjarnadóttir skrifar
Kartöfluuppskeran klárast fyrr en áður
Kartöfluuppskeran klárast fyrr en áður Vísir/Anton Brink
 Á rúmum áratug hefur kartöflubændum fækkað úr tvö hundruð í 32. Fækkunin kemur til vegna lágs verðs og uppskerubrests vegna veðurs. Bein afleiðing er minni framleiðsla og aukinn innflutningur á erlendum kartöflum, sem hefst fyrr en áður. Formaður Félags kartöflubænda gagnrýnir aðgerðarleysi stjórnvalda.

„Það er alveg ljóst að þetta er búið hjá mönnum miklu fyrr nú en áður,“ segir Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli og formaður Félags kartöflubænda, um áhrif fækkunar kartöflubænda á uppskeruna. Bergvin segir að á árum áður hafi uppskera síðasta árs enst fram að nýrri uppskeru, en nú hefjist innflutningur á kartöflum snemma á vorin.

„Það er ekkert óeðlilegt að flytja inn nýjar erlendar kartöflur á sumrin á meðan beðið er eftir þeim íslensku, en nú er uppskera frá síðasta ári flutt inn,“ segir Bergvin. Ný erlend uppskera kemur til landsins í maí eða júní, en sú íslenska endist yfirleitt fram í marsmánuð.

Bergvin segir að um árabil hafi kaupendur ráðið nærri einhliða verði til bænda. Hann segir lágt verð hamla framþróun og kallar eftir ríkisstyrkjum til fjárfestinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×