Skoðun

Lífsgæði fyrir alla

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Lífsgæði borgarbúa eru mér mjög hugleikin, lífsgæði allra en ekki síst þeirra sem glíma við einhvers konar áskoranir í lífinu. Áskoranir tengdar öldrun, einelti, ofbeldi, langvinnum veikindum, erfiðum sjúkdómum, fötlunum og hvers kyns óvæntum áföllum. Ef eitthvað er að hjá barninu þínu eða einhverjum nákomnum ættingja þá er eitthvað að hjá allri fjölskyldunni og allt nærumhverfið líður fyrir bragðið.

Því lengur sem fólk er án stuðnings eða þjónustu við hæfi, því minni lífsgæði hjá allri fjölskyldunni. Það er því mikilvægt fyrir okkur borgarbúa alla að þjónusta borgarinnar sé aðgengileg, einstaklingsmiðuð, vingjarnleg og hún virki vel og hratt. Ég vil að við borgarbúar getum litið á þjónustumiðstöðvar borgarinnar eins og traustan vin í hverfinu sem allir geta leitað til þegar eitthvað bjátar á og fengið ráð, styrk og hjálp. Það þarf að hlúa að þjónustumiðstöðvum borgarinnar og gera þær enn öflugri. Þannig geta þær stutt enn betur við íbúa hverfanna og það góða starf sem meðal annars fer fram í þessum efnum, í leikskólum, grunnskólum og á þjónustustofnunum fatlaðra og aldraðra.

Það er ekki síður mikilvægt að innviðir borgarinnar séu byggðir upp í samræmi við mismunandi þarfir fólks. Fatlað fólk eða aldraðir eiga t.d. að geta búið nánast hvar sem er, ferðast um borgina og nýtt sér þjónustu hennar eins og aðrir án teljandi sérlausna eins og skuldbindingar okkar í mannréttindamálum kveða á um. Nýsamþykkt byggingareglugerð felur í sér mikið framfaraskref í þessum efnum og mun stórauka lífsgæði borgarbúa allra.

Ég vil vinna að bættum lífsgæðum allra borgarbúa og standa vörð um mikilvæg gildi jöfnuðar, samhjálpar og réttlætis í borgarstjórn Reykjavíkur. Því býð ég mig fram í flokksvali Samfylkingarinnar sem haldið verður 7. til 8. febrúar og óska eftir stuðningi í 3. til 4. sæti.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×