Innlent

Fylgjendur allra flokka vilja þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna

Þorgils Jónsson skrifar
Frá kosningunni um Icesave-samninginn árið 2010.
Frá kosningunni um Icesave-samninginn árið 2010. Fréttablaðið/Pjetur
Fylgjendur allra stjórnmálaflokka vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir samtökin Já Ísland. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og svöruðu 1.078.

Samkvæmt henni vilja 67,5 prósent landsmanna að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Stuðningur við atkvæðagreiðslu er yfirgnæfandi í öllum aldurshópum, en mestur hjá fólki yngra en 25 ára, eða 80,4 prósent.

Sé tekið mið af stjórnmálaskoðunum er hlutfallið hæst meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Pírata í næstu kosningum, rúm 77 prósent, en lægsta hlutfallið er í hópi sjálfstæðisfólks þar sem rúm 60 prósent vilja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hlutfallið er eilítið hærra hjá framsóknarfólki, tveir af hverjum þremur fylgjendum VG vilja þjóðaratkvæðagreiðslu, 68,3 prósent samfylkingarfólks og 72 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Bjarta framtíð.

Þá vekur athygli að meirihluti þeirra sem segjast vilja hætta aðildarviðræðum alfarið, alls 51,5 prósent, vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið og 60 prósent þeirra sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Könnunin fór fram dagana 10. til 20. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×