Skoðun

Enn stendur álfakirkjan

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir skrifar
Á sunnudaginn lá leið mín í Gálgahraunið til að berja augum hraunflákana sem fjaðrafokið hefur staðið um. Mig langaði að skoða þetta svæði sem öldungar höfuðborgarinnar hafa lagt sig í líma við að vernda. Eftir að hafa horft á fréttir af lögreglu að bera silfurhært fólki af vettvangi mótmæla og hlustað á fréttir af lögsóknum á hendur hinum öldruðu langaði mig til að vita um hvað þessi styr stæði.

Eiga Íslendingar ekki nóg af hrauni? Skilti sem á stendur Óviðkomandi bannaður aðgangur vísar leiðina, ég ákvað að þetta svæði væri mér viðkomandi og steig yfir það. Breiður vegur liggur í gegn um hraunið í Garðabæ en rétt áður en komið er að hraunklasa sem minnir á ævintýrahöll úr álfasögum hefur hann ekki enn verið breikkaður. Stutt frá er reisulegur, stórbrotinn þríhyrningslaga klettur, þetta er augljóslega álfakirkjan. Sorglegir fánar blakta í vindinum, minnismerki burt bornu öldunganna. Ég stend á gulri þúfu framan við álfakirkjuna og halla aftur augunum. Töfrar liggja í loftinu, helgi álfakirkjunnar gagntekur mig, á svipaðan hátt og ég verð bergnumin í Skálholtskirkju. Í loftinu liggur blessun. Ég arka hugfangin áfram á milli tveggja stórra hraunstapa sem standa tryggir eins og verndarvættir.

Skyndilega breytist umhverfið, ég er aftur stödd í Garðabæ, heyri umferðarniðinn og sé ömurlegan skurð á landinu. Uppbrot er á þeim stað sem Kjarval dáði og opinberaði fegurð hraunsins í málverkum sínum.

Til að geta myndað sér skoðun um þennan stað þarf að fara á hann. Ég skora á þig að gera það. Ekki til að upplifa sorg yfir forgengileika náttúrunnar í höndum ráðandi stjórnenda heldur til að vita hvað við enn eigum. Enn stendur álfakirkjan, enn er möguleiki á breytingum áætlana, enn er hægt að hliðra veginum fram hjá þessum náttúruminjum og útbúa göngustíga þar sem skörðin eru um þessa hraunþyrpingu.

Ef það yrði gert kæmist þá Garðabær á kort ferðamanna? Myndi sérhver erlendur ferðamaður vilja skoða það fyrirbrigði sem Íslendingar meta að verðleikum, hina stórbrotnu náttúru á borgarsvæðinu? Eigum við að valta yfir hraunið, eigum við að láta það í friði, eigum við að láta minnisvarða um breytt hugarfar verða að eftirsóknarverðum segli? Hvers virði er helgi náttúrunnar?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×