Viðskipti innlent

Hagar vilja tollfrjálsan innflutning á ostum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir og Haraldur Guðmundsson skrifar
Framleiðsla á innlendum buffala-, geita- og ærmjólkurostum er sögð engin eða hverfandi.
Framleiðsla á innlendum buffala-, geita- og ærmjólkurostum er sögð engin eða hverfandi. Nordicphotos/Getty
„Við teljum eðlilegt að þegar skortur er á vörum og innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn, séu þær þá fluttar inn án gjalda og tolla,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Fyrirtækið hefur óskað eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að settur verði opinn tollkvóti án allra gjalda fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum.

Finnur segir fáránlegt að ekki megi flytja inn lífrænan kjúkling sem mikið sé spurt um nema á „ofurtollum“. Hvað varðar ostana segir Finnur að það sé vaxandi eftirspurn eftir þeim.

Finnur Árnason
„Þegar buffala-, geita- og ærostar eru seldir á verði sem er skikkanlegt, seljast þeir vel. Þeir eru hins vegar svo hátt tollaðir í dag að það er eins og fjárfesting að ætla að halda litla ostaveislu. Það getur ekki talist eðlilegt,“ segir Finnur. 

Í bréfi Haga til ráðuneytisins færir fyrirtækið þau rök fyrir beiðninni að framleiðsla á innlendum buffala-, geita- og ærmjólkurostum sé ýmist engin eða hverfandi og anni þar af leiðandi ekki eftirspurn. Á það hafi íslenskir geitabændur meðal annars bent. Það sé því viðvarandi skortur á umræddum vörum sem eðlilegt sé að ráðuneytið bregðist við með því að ákveða opinn tollkvóta án gjalda. Slíkt sé í samræmi við heimildir ráðuneytisins og fyrri ákvarðanir þegar skortur hefur verið á öðrum landbúnaðarvörum. 

Finnur nefnir í því sambandi að þegar skortur hafi verið á nautakjöti hér á landi hafi það verið flutt inn tímabundið án tolla. Þá sé skammt um liðið síðan Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði fengu að flytja inn ótollað smjör frá Írlandi með þeim rökum að innlend framleiðsla gæti ekki annað eftirspurn eftir rjóma og smjöri í desember. 

Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, staðfestir að Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hafi borist beiðni Haga. 

„Það er reiknað með því að það verði fundur í nefndinni í lok vikunnar og þangað til er ekkert meira um málið að segja,“ segir Þórir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×