Tónlist

Úr poppinu í djassskotinn fönkbræðing

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Birgir Nielsen vinnur nú hörðum höndum að gerð sinnar fyrstu sólóplötu.
Birgir Nielsen vinnur nú hörðum höndum að gerð sinnar fyrstu sólóplötu. fréttablaðið/vilhelm
„Maður er á nettu egóflippi þegar maður er að gera þetta, maður fær ákveðið kikk út úr því að ráða öllu,“ segir tónlistarmaðurinn Birgir Nielsen sem vinnur nú hörðum höndum að gerð sólóplötu sem er væntanleg til útgáfu í vor.

Birgir, sem fagnaði fertugsafmæli sínu síðastliðinn þriðjudag, hefur gert garðinn frægan með mörgum af þekktustu hljómsveitum landsins, á borð við Land og syni, Vini vors og blóma og Klaufana, ásamt fleirum.

„Mín músíkstefna hefur ekki átt heima í þeim böndum sem ég hef verið í. Þetta er svona fönkkenndur djass en ég hef mest verið í popp- og rokkböndum,“ útskýrir Birgir en efni sólóplötunnar spannar nokkur ár aftur í tímann og er allt eftir hann sjálfan.

Hann fær marga af fremstu hljóðfæraleikurum landsins til þess að leika inn á plötuna. „Ég er með marga frábæra leikmenn með mér, Tommi Tomm, Jói Ásmunds og Frissi Sturlu spila til dæmis bassa inn á plötuna þannig að þetta ætti að sitja nokkuð vel. Einnig leika inn á plötuna Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari, Steinar Sigurðarson saxófónleikari og Snorri Sigurðarson trompetleikari, sem aðstoðar mig einnig við útsetningar,“ segir Birgir léttur í bragði, og bætir við að platan sé ekki trommusóló út í gegn. Mikið er lagt upp úr góðum hljómi og var því Addi 800, vinur Birgis til margra ára, fenginn til þess að annast hljóðblöndun.

Birgir flutti til Vestmannaeyja fyrir fimm árum eftir að hafa búið í höfuðborginni alla sína ævi. „Vestmannaeyjar hafa verið mér góð hvatning, hér hef ég fundið mér tíma til að semja og taka upp. Það er auðvitað draumur allra tónlistarmanna að semja sjálfir og koma efni frá sér,“ segir Birgir sem hefur fengið góða hvatningu frá kollegum sínum í bransanum.

Hann hefur á undanförnum árum fært sig upp á skaftið í lagasmíðum og samdi til að mynda tónlistina við myndina Uppgjör við eldgos, sem kom út í fyrra en þá voru fjörutíu ár frá goslokum í Vestmannaeyjum.

Birgir stefnir á að platan verði fullkláruð með vorinu. „Ég stefni á útgáfu í maímánuði og þá verða einnig útgáfutónleikar í Eyjum og uppi á landi.“

Fyrir utan sólóplötuna hefur Birgir í nógu að snúast. „Það eru Skonrokktónleikar á næstunni þar sem við tökum fyrir eitísglysrokkið. Þá er ég að fara til Óslóar um næstu helgina að spila með Vinum vors og blóma,“ útskýrir Birgir sem lék um liðna helgi á aldarafmælistónleikum Ása í Bæ í Hörpu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×