Skoðun

Skrípaleiks-atkvæðagreiðsla á Krím

Stuart Gill skrifar
Þegar fólki er gert að velja milli valkosta undir hótunum um valdbeitingu er það ekki val.

Á morgun, sunnudag, standa íbúar Krímskaga frammi fyrir ómögulegu vali: að kjósa að verða þegnar Rússlands, eða að kjósa sjálfstæði – með enga tryggingu fyrir því að rússnesk stjórnvöld muni virða fullveldi sjálfstæðs Krímskaga frekar en þau hafa virt landamæri sjálfstæðrar Úkraínu.

Það er séð til þess að líkurnar séu yfirgnæfandi á að niðurstaðan verði Rússlandi í hag – eins og þegar kastað er upp peningi, og valkostirnir eru: Framhliðin: Rússland vinnur. Bakhliðin: Krím tapar.

Atkvæðagreiðslan er – hver sem úrslit hennar verða – bæði ólögleg í skilningi alþjóðalaga og skýlaust brot á stjórnarskrá Úkraínu. Um það leikur enginn vafi. Atkvæðagreiðslan verður ólögmæt. Hvernig gætu kosningar sem haldnar eru í skugga þungvopnaðra rússneskra hermanna, í héraði sem sætir hernámi, verið nokkuð annað?

Spurningar af þessu tagi á að útkljá í frjálsum og sanngjörnum þjóðaratkvæðagreiðslum – eins og við munum sjá dæmi um í Skotlandi seinna á þessu ári. En atkvæðagreiðslan á Krím á morgun verður allt annað en frjáls og sanngjörn.

Á síðustu tveimur áratugum höfum við lagt okkur fram um að yfirvinna spennu og vantraust kaldastríðsáranna og viðurkenna hið öfluga og jákvæða framlag Rússlands til alþjóðasamfélagsins – og til hagsældar okkar allra.



Ekki of seint

Heilum vef alþjóðlegra sáttmála og stofnana hefur verið komið upp til að forðast að endurtaka hinar hatrömmu erjur fortíðarinnar og að stuðla að friðsamlegri lausn ágreiningsmála. Stofnanir á borð við ÖSE og Evrópuráðið, sem Rússland er virkur meðlimur í, gegna því hlutverki að aðstoða ríki við að útkljá mál sem varða sjálfsákvörðunarrétt þjóða og vernd minnihlutahópa.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu – framvörður réttmætra kosningahátta – hefur lýst því yfir að atkvæðagreiðslan á Krím sé ólögleg og stofnunin muni ekki senda eftirlitsmenn til að fylgjast með framkvæmd hennar.

Það er þó ekki orðið of seint fyrir Rússland að notfæra sér þessar stofnanir; að taka af alvöru þátt í diplómatískum samningaumleitunum og sanngjarnri leit að friðsamlegri lausn.

Við skorum enn á Pútín Rússlandsforseta að beita áhrifum sínum í þágu hagsmuna Krímskaga, Úkraínu, Evrópu og Rússlands, og binda enda á þessa deilu.

Mjög mikilvægt fyrsta skref að því marki væri að stjórnvöld í Moskvu ákvæðu að viðurkenna ekki niðurstöðuna úr skrípaleiks-atkvæðagreiðslunni á sunnudag. Það liggur fyrir, að hún mun ekki hafa neitt lagalegt gildi. Hún mun ekki hafa neitt siðferðilegt gildi. Og alþjóðasamfélagið mun ekki viðurkenna niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Hún ætti ekki að fara fram.




Skoðun

Sjá meira


×