Innlent

Fundar með ráðamönnum á morgun

Heimir Már Pétursson og Haraldur Guðmundsson skrifar
Kostiantin Malovany, ræðismaður Íslands í Kænugarði, tók á móti utanríkisráðherra á Boryspil-flugvellinum í Kænugarði.
Kostiantin Malovany, ræðismaður Íslands í Kænugarði, tók á móti utanríkisráðherra á Boryspil-flugvellinum í Kænugarði. vísir/Valli
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun heimsækja úkraínska þingið á morgun og funda með Andrii Deshchytsia, utanríkisráðherra landsins.

Þar mun Gunnar Bragi kynna afstöðu stjórnvalda til yfirtöku Rússa á Krímskaga, sem hann hefur lýst yfir að sé brot á alþjóðalögum, og þátttöku Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússum.

Ráðherra mun hefja daginn með heimsókn í þingið þar sem hann ætlar að hitta fulltrúa allra þingflokka og kynna þeim afstöðu íslenskra stjórnvalda og heyra hver sjónarmið þingmannanna eru.

Að heimsókninni lokinni mun ráðherra borða hádegisverð með fulltrúum frjálsra félagasamtaka á staðnum og þar á eftir litast um á Maidan-torgi í Kænugarði. Í dag var liðinn mánuður frá átökunum á torginu.

Um kvöldmatarleytið mun ráðherra síðan hitta starfandi utanríkisráðherra landsins og borða með honum kvöldverð.

Krímskagi varð í dag formlega hluti af Rússlandi, þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði lög þess efnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×