Handbolti

Haukar keyptu sína eigin verðlaunapeninga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukarnir kátir með medalíurnar sem þeir keyptu sjálfir.
Haukarnir kátir með medalíurnar sem þeir keyptu sjálfir. fréttablaðið/valli
Það vakti athygli margra að Haukar fengu verðlaunapeninga eftir að þeir tryggðu sér deildarmeistaratitilinn á fimmtudag.

Þegar Stjörnustúlkur urðu deildarmeistarar á dögunum þá voru ekki afhentir neinir verðlaunapeningar og hafði heyrst að óánægju í Garðabænum vegna þessa.

Róbert Geir Gíslason, mótastjóri HSÍ, segir að þetta eigi sér allt eðlilegar skýringar.

„Það hefur verið stefnan hjá okkur að veita ekki verðlaunapeninga til deildarmeistara og þá ekki í neinum flokki,“ segir Róbert en af hverju fengu Haukarnir þá medalíur?

„Þeir keyptu þá sjálfir. Það er ekkert flóknara en það. Lögðu út fyrir þeim og báðu okkur um að afhenda þá. Það var sjálfsagt að verða við þeirra bón.“

Um tuttugu verðlaunapeningar kosta undir 10 þúsund krónum og er því eðlilegt að spyrja hvort ekki sé verið að spara óþarflega mikið með því að veita sjálfum deildarmeisturunum ekki verðlaunapeninga.

„Þetta mál er í skoðun hjá okkur og alls ekkert útilokað þessu verði breytt jafnvel næsta vetur,“ segir Róbert Geir Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×