Lífið

Chuck Norris er glerharður

Baldvin Þormóðsson skrifar
Vilhjálmur Sanne segir að allir geti fundið sér eitthvað.
Vilhjálmur Sanne segir að allir geti fundið sér eitthvað. vísir/gva
„Hugmyndin kviknaði eiginlega þegar ég var að fara að sofa eitt kvöldið,“ segir Vilhjálmur Sanne en hann var að opna veitingastaðinn Chuck Norris Grill á Laugaveginum.

„Ég og konan mín vorum að velta fyrir okkur nafni á staðinn og þá datt okkur í hug þetta þema,“ segir Vilhjálmur en flestir hljóta að kannast við brandarana um Chuck Norris og hörku hans.

„Við ákváðum í kjölfarið að fara þá leið að leggja mesta áherslu á steikarsamlokurnar,“ segir veitingastaðareigandinn sem bætir því við að á matseðlinum verði ýmiss konar grillmatur ásamt steikarsamlokunum.

„Við erum með hamborgarana eins og flestir grillstaðir en okkur fannst vanta fleiri staði sem sérhæfðu sig í steikarsamlokum.“

Staðurinn var opnaður síðastliðinn föstudag og segir Vilhjálmur viðtökurnar hafa verið góðar. „Fólki finnst þetta skemmtilegt, Chuck Norris er náttúrlega glerharður.“

Á bak við staðinn er einnig að finna myndarlegan garð sem Vilhjálmur segir eiga eftir að nýtast vel í sumar þegar sólin fer að skína.

„Við erum með nokkur borð og stóla úti en síðan getur fólk líka sest inni eða tekið matinn heim með sér,“ segir Vilhjálmur sem mælir með því að fólk líti inn og grípi með sér eitthvað af grillinu.

„Við bjóðum líka upp á góð salöt og steikur, hér geta allir fundið sér eitthvað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.