Formaður Kjördæmasambands framsóknarfélaganna í Reykjavík, Þórir Ingþórsson, lagði til að frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík kæmu að fjáröflun fyrir framboðið og að gengið yrði frá samkomulagi um það.
Hann segir frambjóðendur þó ekki hafa verið beðna um að skrifa undir sjálfsskuldarábyrgð því tengdu.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Þórir sendi Fréttablaðinu í gær vegna forsíðufréttar blaðsins um fjármál framboðsins.
Þórir segir að frambjóðendum hafi litist illa á hugmyndir hans um aðkomu þeirra að fjáröflun fyrir flokkinn og hugmyndirnar hafi ekki hlotið samþykki í stjórn kjördæmasambandsins.
Í fréttinni er haft eftir Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttir, sem skipaði annað sæti lista Framsóknarflokksins, að margar hugmyndir hafi verið uppi um fjármögnun framboðsins og segir Guðrún: „Ein þeirra leiða var að fjársterkir einstaklingar styrktu framboðið um meira en 400 þúsund en styrkirnir yrðu skráðir sem kaup á happdrættismiðum.“
Í tilkynningu Þóris er þessu vísað á bug. „Hafi Guðrún Bryndís Karlsdóttir heyrt af slíkum hugmyndum geta þær ekki verið komnar frá stjórn KFR,“ segir Þórir. Aldrei hafi staðið til að sniðganga eða brjóta reglur um fjármál stjórnmálaflokka.
Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar
Innlent