Sport

Flest bendir til þess að Aníta sé á réttri leið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aníta ætlar að toppa á HM ungmenna í Bandaríkjunum í sumar.
Aníta ætlar að toppa á HM ungmenna í Bandaríkjunum í sumar. fréttablaðið/valli
Aníta Hinriksdóttir hefur náð góðum árangrum á æfingum í vetur og kemur sterk til leiks á utanhússtímabilinu í frjálsíþróttum sem hefst af fullri alvöru hjá henni um helgina. Þá keppir hún með sveit ÍR á Evrópumóti félagsliða í Hollandi.

„Hún hefur æft talsvert meira í vetur en á sama tíma í fyrra og nú um páskana fórum við í æfingabúðir í fyrsta sinn,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hennar. „Þeir tímar sem hún hefur verið að ná á æfingum benda til að við séum á réttri leið. Ég geri mér engar væntingar um fyrstu hlaupin en það verður gaman að sjá hvað hún gerir.“

Aníta keppir á EM landsliða og sterku unglingamóti í Þýskalandi í júní en stefnt er að því að hún toppi á HM ungmenna í Bandaríkjunum í júlí. Allt miðast við það mót en af þeim ástæðum hafnaði hún boði um þátttöku á Demantamóti í Ósló í síðasta mánuði.

Aníta keppti á HM innanhúss í vetur og náði nógu góðum tíma til að komast úr undanrásum og í úrslitin. Hún var hins vegar dæmd úr leik fyrir að stíga á línu.

„Það gekk vel að vinna úr þeim vonbrigðum – það er að minnsta kosti ekki annað að sjá á æfingum. Upphaflega var ætlunin að nota mótið til að sjá hvar hún stæði gagnvart keppendum í fullorðinsflokki og við fengum þá niðurstöðu. Við bjuggumst til dæmis ekki við að komast í úrslitahlaupið en hún gerði það í raun og veru.“

Hann segir að þetta hafi verið áminning sem geti komið sér vel fyrir framtíðina. „Vonandi er þetta eitthvað sem kemur bara einu sinni fyrir og svo er þetta komið inn í undirmeðvitundina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×