Stjórnvöld í Úkraínu náðu í gær yfirráðum í hafnarborginni Mariupol í austurhluta landsins eftir átök við aðskilnaðarsinna. Innanríkisráðherra landsins, Arseníj Avakoff, sagði í gær að öryggissveitir ríkisstjórnarinnar hefðu nú fulla stjórn á höfuðvígum aðskilnaðarsinna í borginni.
BBC greinir frá. Hundruð manna hafa látið lífið í átökum síðan skæruliðar, fylgjandi innlimun austurhluta Úkraínu í Rússlandi, stóðu fyrir umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu á svæðinu og lýstu yfir sjálfstæði í kjölfarið.
Samkvæmt fyrstu fréttum féllu fimm aðskilnaðarsinnar í átökunum í gær og að minnsta kosti fjórir úr liði stjórnvalda slösuðust. Litið er á aðgerðina sem sigur fyrir úkraínsk stjórnvöld en þess ber að geta að oft hefur verið barist um Mariupol og ekki er útilokað að aðskilnaðarsinnar nái henni á vald sitt aftur.
Annars staðar í austurhluta Úkraínu hafa uppreisnarmenn tilkynnt að þeir búi nú yfir þremur skriðdrekum. Stjórnvöld í Úkraínu segja að þeir hafi komið til landsins frá Rússlandi, en ríkisstjórn Rússlands neitar þeim ásökunum.
