Viðskipti innlent

Ríkið endurgreiði gjöld af iPod Touch

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Um 15 til 20 prósent af vörum eru líklega rangt flokkuð.
Um 15 til 20 prósent af vörum eru líklega rangt flokkuð. Mynd/Apple.com
Dómur féll á föstudag í máli sem rekið var gegn íslenska ríkinu vegna tollflokkunar á iPod Touch-spjaldtölvum. Niðurstaðan var á þá leið að staðfest var að tækið hefur verið tollflokkað með röngum hætti um árabil.

Þannig var tækið fyrst sett í tollflokkinn „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki“ og síðar „myndupptökutæki eða myndflutningstæki“. Flokkunin leiddi til þess að innflytjendur vörunnar höfðu greitt umtalsverð gjöld við innflutning hennar. Það fé, samtals rúmlega 16 milljónir ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, ber ríkinu að endurgreiða.

Stefnandi, Skakkiturn ehf. umboðsmaður Apple á Íslandi, taldi að flokka ætti tækið í tollflokkinn „sjálfvirkar ferðagagnavinnsluvélar og einingar til þeirra“ og féllst dómurinn á þá flokkun en sá tollflokkur ber engin gjöld eða tolla.

„Þetta kemur í raun ekkert á óvart,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda, sem aðstoðaði stefnanda. „Varan er tölva en ekki vasadiskó og það vita allir sem hafa notað hana. Það sem meira máli skiptir er að innflytjendur geri sér grein fyrir því að tollflokkun er oft og tíðum röng. Það er erfitt að meta það með vissu en við höfum áætlað að í ákveðnum vöruflokkum séu allt að 15 til 20 prósent af vörum rangt flokkuð.“

Lögmaður Apple í málinu segir óljóst hvort ríkið ákveði að áfrýja niðurstöðunni en hún sé fagnaðarefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×