„Ég vil ekki vera bara sá sem datt í sjóinn“ Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 6. júlí 2014 00:18 Eiríkur Ingi Jóhannsson og börnin hans, Selka Sólbjört, Adam Valgeir, Vigdís Sól og Jónatan Jón. Þetta tók á. Ég vissi samt alltaf að ég gæti klárað hringinn innan þeirra 84 stunda sem hámarkið var. Það var aldrei neitt stress í mér, ég hélt mínum hraða og var ekkert að rembast upp brekkurnar,“ segir Eiríkur Ingi Jóhannsson um hjólatúr sinn umhverfis landið á vegum WOW Cyclothon. Meðan flestir þátttakendur í því ævintýri dreifðu álaginu með því að skiptast á að hjóla og kljúfa vindinn var hann einn á ferð og steig pedalana svo til látlaust í 76 klukkustundir og 40 mínútur. Þó ekki alveg. Hann svaf í 20 mínútur á Akureyri og eftir það tók hann þrjá 50 mínútna dúra og tvær smá kríur. „Tíu mínútna dúr kostaði mig samt klukkutíma töf,“ útskýrir hann. Honum fannst landslagið á leiðinni frá Djúpavogi til Víkur langfallegast en hvað var erfiðast við ferðina? „Bleytan og kuldinn. Ég lenti í úrhelli og brjáluðum mótvindi frá mynni Hvalfjarðar í Borgarnes og var orðið verulega kalt því regnfötin voru í bílnum mínum. Mamma og vinkona mín voru á honum, þær voru mitt stuðningslið og fóru á undan í Borgarnes að kaupa kost. Það var kalsarigning alveg norður í Húnavatnssýslu og ég náði ekki í mig hita fyrr en í sundlauginni á Akureyri, ég gaf mér hálftíma til að fara í hana áður en ég lagði mig.“ Þótt veðrið hefði snarlagast og væri jafnvel of mollulegt á köflum að mati hjólreiðamannsins voru vandræði hans ekki öll úr sögunni. Hann var að komast að Goðafossi í góðum gír þegar bíllinn hans bilaði í Fnjóskadalnum svo hann varð að húkka far til baka og vinda sér í viðgerð. „Þá missti ég tvo og hálfan tíma úr á hjólinu,“ segir hann og telur það vera áfall númer tvö í ferðinni. Hann reiknar byltuna í einu hringtorgi Mosfellsbæjar ekki með. „Ég skransaði í bleytunni,“ segir hann. „Er svo óvanur sléttum dekkjum eins og eru á reiserhjólinu að ég fór á hliðina, skemmdi jakkann minn aðeins, stýrið og annan pedalann. Þannig að þetta byrjaði ekki alveg nógu vel en fall er fararheill.“ Spurður um þjálfunina fyrir þessa þrekraun kveðst hann hafa hjólað frá Ísafirði til Reykjavíkur tveimur vikum áður en legið í tvo daga í rúminu með streptókokkasýkingu og hita eftir það og enn verið á meðulum þegar hann lagði upp í hringferðina. „Ég hef ekki þjálfað mikið en greinilega nógu mikið til að hafa þetta. Keypti hjólið bara í byrjun júní og er búinn að hjóla á því 2.091 kílómetra á einum mánuði í fjórum túrum. Miðað við allt sem ég hef lent í þá telst þetta góður árangur og ég veit að ég get meira.“Fær tíu hjá sérfræðingum „Miðað við allt sem ég hef lent í…“ segir Eiríkur. Það leiðir hugann að hinu hörmulega sjóslysi 2012 sem hann komst einn lífs úr þegar togarinn Hallgrímur fórst við Noregsstrendur. Heimkominn lýsti hann aðstæðunum svo ljóslega að fólk sá þær fyrir sér. En nú kýs hann að tala um eitthvað annað. „Ég vil ekki vera bara sá sem datt í sjóinn,“ segir hann einlægur. „Þetta fylgir mér auðvitað en mig langar ekki að ræða það. Mér hefur gengið ágætlega að vinna mig frá því með hjálp sérfræðinga og fæ tíu hjá þeim öllum. Svona reynsla hefur ýmislegt í för með sér sem breytir lífinu, ég er ekki sáttur við það allt en maður velur sér ekki að lenda í slysi, reynir bara að gera það besta úr því og það gengur bara vel.“ Eiríkur Ingi kveðst ekki hafa farið á sjó eftir atburðinn við Noreg. „Sá kafli er búinn. Ég er í skóla núna, Fjölbraut í Breiðholti, í rafvirkjanámi að reyna að koma hausnum í gang og finna mér eitthvað að gera. Á eina önn eftir sem ég ætla að ljúka í haust. Þá fer ég vonandi á samning.“ Hann kveðst hafa byrjað á sjónum 2009 en lengst hafi hann starfað við viðgerðir þungavinnuvéla. Nánast alist upp á verkstæði. „Ég er vanur að vera undir álagi, vaka mikið og skila erfiðisvinnu í törnum. Ég held að það sé hluti af þeim árangri sem ég næ þegar mikið liggur við.“ Eiríkur Ingi á líka fjölbreytt nám að baki. „Ég lærði fyrst vélvirkjun og tók rennismíðina með því. Síðan fór ég gegnum köfunarnám erlendis og flutti líka inn kennara í þeim fræðum. Einnig tók ég stýrimanninn og síðan vélstjórann en á eftir sex einingar sem ég tek í haust í stærðfræði og efnafræði. Svo er ég hálflærður pípari líka.“ Þegar Eiríki er bent á að fólk vanti í iðngreinar svarar hann að bragði: „Já, það vantar alltaf fólk í einhver störf. Það er enn vöntun á góðum pólitíkusum. Ekki erum við að finna þá. Sá skortur hefur verið lengi.“ Eiríkur Ingi er titlaður tækniköfunarkennari í símaskránni. „Ég held ég sé einn best menntaði köfunarkennarinn hér á landi og hélt fá en góð námskeið. En það hefur dregið úr áhuganum hjá mér. Sjóslysið hafði áhrif á það líka. Reynslan úr köfuninni hjálpaði mér samt heilmikið þegar ég lenti í því, það er enginn vafi. Við erum enn að tala um slysið. Slysið er fortíðin.“Skemmtilegast með krökkunum Eiríkur Ingi er einstæður fjögurra barna faðir. „Lífið snýst um að sinna börnunum, við móðir þeirra skiptumst á að vera með þau, viku og viku. Mér finnst tómlegt þegar þau eru ekki heima,“ segir hann. Börnin eru fjórtán, átta, sex og fjögurra ára. „Stelpa, strákur, stelpa, strákur – öll fædd á jafnri tölu,“ segir Eiríkur glaðlega og ryður úr sér nöfnunum svo hratt að ég verð að biðja hann að fara með þau aftur – hægar. „Selka Sólbjört, Adam Valgeir, Vigdís Sól og Jónatan Jón. Ég held að ekkert þeirra eigi alnafna eða alnöfnu.“ Selka Sólbjört er nýfermd. „Hún var hjartaveik sem ungabarn og við þurftum að hendast með hana í skyndi til Boston en aðgerðin blessaðist og hún er hraust í dag.“ Frábærast af öllu finnst Eiríki að vera úti í náttúrunni í blönduðu veðri með fjölskyldunni. „Það verður ekki skemmtilegra,“ segir hann og kveðst vilja hafa sem minnsta reglu á hlutunum, frekar gera eitthvað óvænt. „Við verðum eitthvað á flakki í sumar þegar leikskólafríið brestur á.“ Í tjaldi? „Nei, ég hef prófað að tjalda með stóra fjölskyldu. Það þarfnast meiri skipulagningar en ég bý yfir. Ég dáist að fólki sem hefur slíka hæfileika. Er bara með dýnu aftur í bílnum, það er þægilegra. Bíllinn minn er eins og legó. Ég get tekið allt úr honum og raðað í hann eftir því hvernig ég ætla að nota hann.“ Í lokin: Býst hann við að stunda hjólreiðarnar stíft, nú þegar hann er kominn í svona góða æfingu? „Ég veit ekki hvort ég verð í svona langtúrum. Það á bara eftir að koma í ljós. Mér finnst skemmtilegra á fjallahjólum og langar að taka nokkra slíka túra í sumar, hversu mikið sem verður úr því. Vonandi verð ég í betra formi fertugur en ég var tvítugur.“ Wow Cyclothon Mest lesið Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Margt bendi til þess að Rússar hafi haft aðkomu að flugslysinu Erlent Alvarlegt bílslys í Öræfum Innlent Stuðningsmenn Assad drápu 14 ráðuneytisstarfsmenn Erlent Grímuskylda á Landspítalanum Innlent Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Innlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Nokkrir látnir í alvarlegu rútuslysi í Noregi Erlent Sæstrengur milli Eistlands og Finnlands rofinn Erlent Fleiri fréttir Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Sjá meira
Þetta tók á. Ég vissi samt alltaf að ég gæti klárað hringinn innan þeirra 84 stunda sem hámarkið var. Það var aldrei neitt stress í mér, ég hélt mínum hraða og var ekkert að rembast upp brekkurnar,“ segir Eiríkur Ingi Jóhannsson um hjólatúr sinn umhverfis landið á vegum WOW Cyclothon. Meðan flestir þátttakendur í því ævintýri dreifðu álaginu með því að skiptast á að hjóla og kljúfa vindinn var hann einn á ferð og steig pedalana svo til látlaust í 76 klukkustundir og 40 mínútur. Þó ekki alveg. Hann svaf í 20 mínútur á Akureyri og eftir það tók hann þrjá 50 mínútna dúra og tvær smá kríur. „Tíu mínútna dúr kostaði mig samt klukkutíma töf,“ útskýrir hann. Honum fannst landslagið á leiðinni frá Djúpavogi til Víkur langfallegast en hvað var erfiðast við ferðina? „Bleytan og kuldinn. Ég lenti í úrhelli og brjáluðum mótvindi frá mynni Hvalfjarðar í Borgarnes og var orðið verulega kalt því regnfötin voru í bílnum mínum. Mamma og vinkona mín voru á honum, þær voru mitt stuðningslið og fóru á undan í Borgarnes að kaupa kost. Það var kalsarigning alveg norður í Húnavatnssýslu og ég náði ekki í mig hita fyrr en í sundlauginni á Akureyri, ég gaf mér hálftíma til að fara í hana áður en ég lagði mig.“ Þótt veðrið hefði snarlagast og væri jafnvel of mollulegt á köflum að mati hjólreiðamannsins voru vandræði hans ekki öll úr sögunni. Hann var að komast að Goðafossi í góðum gír þegar bíllinn hans bilaði í Fnjóskadalnum svo hann varð að húkka far til baka og vinda sér í viðgerð. „Þá missti ég tvo og hálfan tíma úr á hjólinu,“ segir hann og telur það vera áfall númer tvö í ferðinni. Hann reiknar byltuna í einu hringtorgi Mosfellsbæjar ekki með. „Ég skransaði í bleytunni,“ segir hann. „Er svo óvanur sléttum dekkjum eins og eru á reiserhjólinu að ég fór á hliðina, skemmdi jakkann minn aðeins, stýrið og annan pedalann. Þannig að þetta byrjaði ekki alveg nógu vel en fall er fararheill.“ Spurður um þjálfunina fyrir þessa þrekraun kveðst hann hafa hjólað frá Ísafirði til Reykjavíkur tveimur vikum áður en legið í tvo daga í rúminu með streptókokkasýkingu og hita eftir það og enn verið á meðulum þegar hann lagði upp í hringferðina. „Ég hef ekki þjálfað mikið en greinilega nógu mikið til að hafa þetta. Keypti hjólið bara í byrjun júní og er búinn að hjóla á því 2.091 kílómetra á einum mánuði í fjórum túrum. Miðað við allt sem ég hef lent í þá telst þetta góður árangur og ég veit að ég get meira.“Fær tíu hjá sérfræðingum „Miðað við allt sem ég hef lent í…“ segir Eiríkur. Það leiðir hugann að hinu hörmulega sjóslysi 2012 sem hann komst einn lífs úr þegar togarinn Hallgrímur fórst við Noregsstrendur. Heimkominn lýsti hann aðstæðunum svo ljóslega að fólk sá þær fyrir sér. En nú kýs hann að tala um eitthvað annað. „Ég vil ekki vera bara sá sem datt í sjóinn,“ segir hann einlægur. „Þetta fylgir mér auðvitað en mig langar ekki að ræða það. Mér hefur gengið ágætlega að vinna mig frá því með hjálp sérfræðinga og fæ tíu hjá þeim öllum. Svona reynsla hefur ýmislegt í för með sér sem breytir lífinu, ég er ekki sáttur við það allt en maður velur sér ekki að lenda í slysi, reynir bara að gera það besta úr því og það gengur bara vel.“ Eiríkur Ingi kveðst ekki hafa farið á sjó eftir atburðinn við Noreg. „Sá kafli er búinn. Ég er í skóla núna, Fjölbraut í Breiðholti, í rafvirkjanámi að reyna að koma hausnum í gang og finna mér eitthvað að gera. Á eina önn eftir sem ég ætla að ljúka í haust. Þá fer ég vonandi á samning.“ Hann kveðst hafa byrjað á sjónum 2009 en lengst hafi hann starfað við viðgerðir þungavinnuvéla. Nánast alist upp á verkstæði. „Ég er vanur að vera undir álagi, vaka mikið og skila erfiðisvinnu í törnum. Ég held að það sé hluti af þeim árangri sem ég næ þegar mikið liggur við.“ Eiríkur Ingi á líka fjölbreytt nám að baki. „Ég lærði fyrst vélvirkjun og tók rennismíðina með því. Síðan fór ég gegnum köfunarnám erlendis og flutti líka inn kennara í þeim fræðum. Einnig tók ég stýrimanninn og síðan vélstjórann en á eftir sex einingar sem ég tek í haust í stærðfræði og efnafræði. Svo er ég hálflærður pípari líka.“ Þegar Eiríki er bent á að fólk vanti í iðngreinar svarar hann að bragði: „Já, það vantar alltaf fólk í einhver störf. Það er enn vöntun á góðum pólitíkusum. Ekki erum við að finna þá. Sá skortur hefur verið lengi.“ Eiríkur Ingi er titlaður tækniköfunarkennari í símaskránni. „Ég held ég sé einn best menntaði köfunarkennarinn hér á landi og hélt fá en góð námskeið. En það hefur dregið úr áhuganum hjá mér. Sjóslysið hafði áhrif á það líka. Reynslan úr köfuninni hjálpaði mér samt heilmikið þegar ég lenti í því, það er enginn vafi. Við erum enn að tala um slysið. Slysið er fortíðin.“Skemmtilegast með krökkunum Eiríkur Ingi er einstæður fjögurra barna faðir. „Lífið snýst um að sinna börnunum, við móðir þeirra skiptumst á að vera með þau, viku og viku. Mér finnst tómlegt þegar þau eru ekki heima,“ segir hann. Börnin eru fjórtán, átta, sex og fjögurra ára. „Stelpa, strákur, stelpa, strákur – öll fædd á jafnri tölu,“ segir Eiríkur glaðlega og ryður úr sér nöfnunum svo hratt að ég verð að biðja hann að fara með þau aftur – hægar. „Selka Sólbjört, Adam Valgeir, Vigdís Sól og Jónatan Jón. Ég held að ekkert þeirra eigi alnafna eða alnöfnu.“ Selka Sólbjört er nýfermd. „Hún var hjartaveik sem ungabarn og við þurftum að hendast með hana í skyndi til Boston en aðgerðin blessaðist og hún er hraust í dag.“ Frábærast af öllu finnst Eiríki að vera úti í náttúrunni í blönduðu veðri með fjölskyldunni. „Það verður ekki skemmtilegra,“ segir hann og kveðst vilja hafa sem minnsta reglu á hlutunum, frekar gera eitthvað óvænt. „Við verðum eitthvað á flakki í sumar þegar leikskólafríið brestur á.“ Í tjaldi? „Nei, ég hef prófað að tjalda með stóra fjölskyldu. Það þarfnast meiri skipulagningar en ég bý yfir. Ég dáist að fólki sem hefur slíka hæfileika. Er bara með dýnu aftur í bílnum, það er þægilegra. Bíllinn minn er eins og legó. Ég get tekið allt úr honum og raðað í hann eftir því hvernig ég ætla að nota hann.“ Í lokin: Býst hann við að stunda hjólreiðarnar stíft, nú þegar hann er kominn í svona góða æfingu? „Ég veit ekki hvort ég verð í svona langtúrum. Það á bara eftir að koma í ljós. Mér finnst skemmtilegra á fjallahjólum og langar að taka nokkra slíka túra í sumar, hversu mikið sem verður úr því. Vonandi verð ég í betra formi fertugur en ég var tvítugur.“
Wow Cyclothon Mest lesið Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Margt bendi til þess að Rússar hafi haft aðkomu að flugslysinu Erlent Alvarlegt bílslys í Öræfum Innlent Stuðningsmenn Assad drápu 14 ráðuneytisstarfsmenn Erlent Grímuskylda á Landspítalanum Innlent Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Innlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Nokkrir látnir í alvarlegu rútuslysi í Noregi Erlent Sæstrengur milli Eistlands og Finnlands rofinn Erlent Fleiri fréttir Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Sjá meira