Auður Elín segir samband milli notkunar bólgueyðandi lyfja og blæðingar í meltingarvegi vera þekkt. „Það er þó ekki hægt að fullyrða að aukin notkun bólgueyðandi lyfja valdi aukinni tíðni blæðingar í meltingarvegi. Til að fullyrða það þyrfti frekari rannsóknir. Niðurstöðurnar eru engu að síður hvati fyrir aukna umræðu um notkun bólgueyðandi lyfja og hvort einstaklingar noti lyfin rétt.“
Lyfin eru flest seld í lausasölu og því segir Auður: „Það er því alltaf spurning hvort þau séu keypt án fræðslu um mögulegar aukaverkanir. Það fylgja alltaf fylgiseðlar en það er spurning hversu margir lesa þá.“

Páll Torfi bætir við: „Sumir fá í magann af þessum lyfjum og taka þá sýrustillandi lyf í stað þess að skipta um lyf.“
Lárus Steinþór Guðmundsson, sérfræðingur hjá landlæknisembættinu, sem leiðbeindi Auði við ritgerðina, segir: „Ef fólk tekur bólgueyðandi lyf um lengri tíma er alltaf hætta á að það hafi afleiðingar.“
Lárus telur því „mikilvægt að fólk hafi áreiðanlegar upplýsingar áður en það tekur inn lyf. Til þess er best að skoða fylgiseðla sem eru aðgengilegir inni á serlyfjaskra.is.“
Lárus útilokar ekki að efla þurfi fræðslu varðandi notkun bólgueyðandi lyfja af hálfu landlæknisembættisins.
Jóhann Páll Hreinsson, sem nú vinnur að doktorsverkefni um blæðingar frá meltingarvegi segir: „Aldraðir og nýrnaveikir ættu helst ekki að taka bólgueyðandi lyf.“