Innlent

Gunnar Bragi undirbýr samstarf við Úkraínu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Heppnaðist vel Fundinum með Stofnun um orkusparnað í Úkraínu lyktaði með ákvörðun um undirbúning að samstarfi.
Heppnaðist vel Fundinum með Stofnun um orkusparnað í Úkraínu lyktaði með ákvörðun um undirbúning að samstarfi. Fréttablaðið/Pjetur
Ísland og Úkraína hafa ákveðið að hefja undirbúning að samstarfi ríkjanna í virkjun jarðhita í Úkraínu.

Ákvörðunin var tekin á fundi sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti með Vítalí Grygorovskí, aðstoðarforstjóra Stofnunar um orkusparnað í Úkraínu. Þangað hélt Gunnar Bragi í gær og verður fram á fimmtudag eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær.

Að sögn Sunnu Gunnars Marteinsdóttur, aðstoðarmanns Gunnars Braga, hefur utanríkisráðuneytið verið að leita leiða til að hjálpa Úkraínu og styðja við uppbyggingu.

„Okkar hugmynd til að hjálpa þeim er að fara í svona samstarf um jarðhita af því að þeir eru svo háðir gasi frá Rússlandi,“ sagði hún í samtali við Fréttablaðið. Að auki senda Úkraínumenn nemanda í haust í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í þeim tilgangi að leggja stund á nám í fiskveiðistjórnun.

Íslensk stjórnvöld hafa nú „boðist til að kortleggja tækifæri í virkjun jarðhita í Úkraínu sem lið í að auka fjölbreytni og efla þátt endurnýjanlegra orkugjafa í orkuöflun landsins,“ eins og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Tækifærin liggja í vesturhluta Úkraínu að sögn utanríkisráðherra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×