Innlent

Tólf frá sjö löndum grófu upp Skugga

Freyr Bjarnason skrifar
Hluti fornleifafræðinganna að störfum við uppgröftinn á Skugga.
Hluti fornleifafræðinganna að störfum við uppgröftinn á Skugga.
Tólf fornleifafræðingar frá sjö löndum hafa grafið upp torfhúsið Skugga í Staðartungu í Hörgárdal, skammt frá mynni Myrkárdals. 

Fornleifarannsóknir hafa farið fram þar undanfarin sumur og í júlí hélt hópur af fornleifafræðingum starfinu áfram.

Loftmynd af svæðinu þar sem torfbærinn var grafinn upp.
Við rannsóknina vinna saman starfsmenn City University of New York og Fornleifastofnunar Íslands.

Síðasta sumar fundust leifar af húsinu undir öskuhaug frá 10. til 11. öld. Það reyndist vera íbúðarhús með þykku gólflagi og eldstæði.

Gripirnir sem fundust í húsinu voru hefðbundnir fyrir víkingaaldarhús en meðal þess sem fannst voru perlur og járngripir.

Að sögn Gísla Pálmasonar hjá Fornleifastofnun Íslands var húsið byggt á eldri öskuhaug og því ljóst að um er að ræða ævafornt býli.

„Það kemur hálfpartinn á óvart að býlið er mjög ofarlega í dalnum og hátt í hlíðinni. Skynsemin segir manni að betra landið nær Eyjafirði hafi líklega verið numið fyrst og samkvæmt því er líklegt að dalurinn hafi verið fullnuminn snemma á landnámsöld,“ segir Gísli, spurður út í uppgröftinn.

Fornleifarannsóknir hafa farið fram í Staðartungu undanfarin sumur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×