Skoðun

Þversagnakennd Evrópustefna

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur hefur undanfarið skrifað áhugaverðar greinar um Evrópumál í Fréttablaðið. Í einni slíkri sem birtist í gær bendir hún á þversögnina sem felst í því að í svokallaðri Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stóreflda hagsmunagæzlu Íslands á vettvangi EES-samningsins, en um leið leggur stjórnarliðið ofuráherzlu á niðurskurð í utanríkisþjónustunni. (Nema þegar kemur að skipan stjórnmálamanna í sendiherrastöður, mætti bæta við.)

„Þversögnin verður þeim mun vandræðalegri þegar horft er til þess hversu illa Íslandi gengur að innleiða EES-löggjöf,“ skrifar Jóna. Hún rifjar upp að Ísland stendur sig verst allra EES-ríkjanna í innleiðingu Evrópulöggjafarinnar.

Í byrjun marz var sagt frá því að í lok síðasta árs hefði Ísland enn ekki innleitt 3,2 prósent EES-reglna, samkvæmt yfirliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Eins og Jóna bendir á þýðir þetta að íslenzkir borgarar og fyrirtæki búa ekki við sama regluverk og gildir í öðrum ríkjum EES. Dráttur á innleiðingu löggjafar leiðir líka til tímafrekra og kostnaðarsamra málaferla fyrir EFTA-dómstólnum.

Stuttu eftir að þessar vondu tölur voru birtar í marz birti ríkisstjórnin „Evrópustefnu“ sína, þar sem sett er fram áætlun um að vinna á innleiðingarhallanum, meðal annars til þess að mannskapur stjórnsýslunnar, sem ætti að vera að gæta að hagsmunum Íslands á upphafsstigum löggjafarferlis Evrópusambandsins, losni úr verkefnum vegna tafa á innleiðingu.

Í áætluninni er kveðið á um að á fyrri hluta næsta árs verði „innleiðingarhallinn“ kominn undir eitt prósent. Samkvæmt nýjustu tölum, sem birtust í síðasta mánuði, hefur staðan hins vegar ekki skánað mikið; talan lækkar um 0,1 prósentustig.

Í „Evrópustefnunni“ eru fleiri metnaðarfull markmið um að gæta hagsmuna Íslands á fyrri stigum löggjafarferlisins, stórfjölga fundum sem ráðherrar og embættismenn sæki í þágu slíkrar hagsmunagæzlu og efla samráðið við hin EFTA-ríkin. Og þar er líka setning um að utanríkisráðherra muni gera tillögur um hvernig megi „styrkja starf einstakra fagráðuneyta og við sendiráð Íslands í Brussel“.

Þar stendur hins vegar hnífurinn í kúnni. Undanfarin ár hefur sendiráðið í Brussel verið veikt verulega. Jóna Sólveig bendir á að þar starfi nú aðeins þrír fulltrúar fagráðuneyta. Þeir voru einu sinni sjö til átta. Jóna ber þetta saman við sendiráð Noregs í Brussel, þar sem 30 af 50 starfsmönnum vinna í EES-tengdum málum. Samt er það svo að norsk stjórnvöld telja sig í raun hafa fremur takmörkuð áhrif á löggjöf ESB.

Markmið „Evrópustefnu“ ríkisstjórnarinnar hvað EES-samninginn varðar nást ekki nema talsverð vinna, mannskapur og peningar verði sett í málið. Fyrsta verkefnið er að tryggja að Ísland standi sig sem hluti af einsleitu efnahagssvæði þar sem sömu reglur gilda. Í „Evrópustefnunni“ er það réttilega sagt varða „ítrustu hagsmuni“ íslenzkra einstaklinga og fyrirtækja. Önnur þversögn í málinu er þó sú að slíka einsleitni myndu ýmsir stjórnarliðar kalla „aðlögun“ að Evrópusambandinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×