Erlent

Farsælt stefnumót í geimnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vísindamenn Evrópsku geimferðastofnunarinnar ESA fylgdust spenntir með í gær þegar könnunargeimfarið Rosetta komst loks á braut umhverfis halastjörnuna 67P/Chuyumov-Gerasimenko.

Geimfarinu var skotið út í geiminn árið 2004 og hefur síðan verið að mjakast í áttina. Allt hefur farið eins og til var ætlast, en nú hefst undirbúningurinn að því að lítið lendingarfar verði sent niður til halastjörnunnar.

Þetta verður í fyrsta sinn sem geimfari er lent á halastjörnu.

Könnunarfarið mun svo fylgja halastjörnunni eftir um það bil hundrað kílómetra leið, en vísindamenn vonast til þess að út úr rannsóknunum komi margvíslegar upplýsingar um gerð og uppruna halastjarna og annarra himintungla.

„Evrópska Rosetta-farið er nú fyrsta geimfar sögunnar sem kemst í návígi við halastjörnu. Þetta er mikill áfangi í rannsóknum á uppruna okkar. Nú geta uppgötvanirnar hafist,“ segir í yfirlýsingu frá Jean-Jacques Dordain, framkvæmdastjóra ESA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×