Ólafur H. Jónsson, talsmaður meirihluta landeigenda, telur að landeigendur hafi orðið fyrir milljónatuga tapi í sumar vegna lögbannsins. „Þetta er ekki eins og þú setjir upp pylsuskúr og byrjir að innheimta. Þetta er tugmilljóna dæmi vegna þess að við erum með vélbúnað, hugbúnað, leiðbeinandi girðingar og aðstöðu fyrir starfsmenn,“ segir hann aðspurður.
Beiðni minnihluta landeigenda um lögbannið var samþykkt um miðjan júlí eftir að gjald hafði verið tekið af gestum í um einn mánuð. „Þetta tekur nokkrar vikur og síðan heldur þetta til Hæstaréttar nema forsendurnar séu svo augljósar að menn hafi ekki efni á því að fara í Hæstarétt,“ segir Ólafur og bætir við að 86 prósent aðila hafi samþykkt framkvæmdina 31. janúar.

Ólafur óttast að málið muni dragast á langinn næstu árin án þess að lausn fáist á því. „Það verður breytt ásýnd og er þegar orðin breytt ásýnd á þessum svæðum vegna þess að núna þegar rignir þá er þetta bara drullusvað og hver hugsar um það? Það má enginn af því að það verður ekkert gert í landi Reykjahlíðar fyrr en það verður komið á hreint hverjir mega það.“