Lífið

Agnes söngkona Þoku: Semur texta út frá persónulegri reynslu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Agnes Björgvinsdóttir, söngkona Þoku, leggur mikið upp úr því að textarnir séu einlægir og hreinskilnir. "Þannig músík hrífur mig mest.“
Agnes Björgvinsdóttir, söngkona Þoku, leggur mikið upp úr því að textarnir séu einlægir og hreinskilnir. "Þannig músík hrífur mig mest.“ Fréttablaðið/Arnþór
„Það eru tveir heimar sem mætast í tónlistinni okkar, djass og klassík, sem skarast og úr verður einhvers konar dramatískur ljóðrænn bræðingur,“ segir Agnes Björgvinsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar Þoku sem vinnur nú að sinni fyrstu plötu. Hljómsveitin varð í öðru sæti í Músíktilraunum árið 2012 og var Agnes þar að auki valin söngvari keppninnar.

„Við höfum lokið við allar upptökur og erum að safna fyrir eftirvinnslunni á Karolina Fund,“ útskýrir hún.

Auk Agnesar eru í hljómsveitinni Reynir Hauksson gítarleikari og Atli Már Björnsson hljómborðsleikari. Þau semja texta og lög saman og því mætast ólíkir pólar í tónlistinni. „Þegar það eru svona fáir þá skipta skoðanir hvers og eins svo miklu máli. Þannig að ef einhver einn er ósáttur við eitthvað þá er það skoðað.“

„Við leggjum upp úr því að vera einlæg og hreinskilin. Það er það sem hrífur mig mest við músík,“ segir Agnes. „Við fjöllum um það sem er hverjum og einum efst í huga.“

Agnes samdi texta við lagið Fylgdu mér lengra haustið 2013 um baráttu móður sinnar við ólæknandi krabbamein.

„Við vorum að plana fimmtugsafmælið hennar þarna um haustið og fengum slæmar fréttir sem höfðu gríðarleg áhrif á mig. Maður lítur öðruvísi á þetta þegar einhver nákominn manni er að berjast við eitthvað svona og maður er alveg hjálparlaus og svo koma þessi tímamót, hún að vera fimmtug, maður þakkar bara fyrir hvert ár og hvern dag.“

Lagið flutti Agnes svo í fimmtugsafmæli móður sinnar þá þegar um haustið. „Þetta var náttúrulega hádramatískt,“ segir hún og hlær. „Allir skældu, hún fór náttúrulega að skæla og ég þurfti að passa mig að horfa ekki á hana því að þá hefði ég eflaust farið að skæla líka. Ég er svo dramatísk. Þetta þarf samt ekkert að vera óður til veikrar móður, það getur hver sem er túlkað þetta á sinn hátt.“

Agnesi finnst það skila sér í flutningi þegar ort er um persónulega reynslu. „Mér finnst gaman að flytja verk og vera að segja eitthvað með því. Þú kemur á sviðið og þú skilur sálina eftir á því fyrir alla að sjá. Þó að áhorfendur þekki mig ekki þá er ég að sýna á mér hlið sem ég sýni ekkert alla daga.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.