Viðbragðs- og hagsmunaaðilar héldu fundi með íbúum vegna jarðhræringa alla síðustu viku, þar á meðal á Húsavík, í Öxarfirði og á Egilsstöðum. Ekkert er látið mæta afgangi, og héldu fulltrúar Almannavarna fjarfund með kollegum sínum á Norðurlöndunum í gær.
Svavar segir að á fundi með íbúum í Öxarfirði og Kelduhverfi hafi verið farið í gegnum rýmingaráætlanir til að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu ef til eldsumbrota og flóðs í Jökulsá kemur. Allir séu meðvitaðir um þær hættur sem slíku geta fylgt, bæði fyrir íbúa á svæðinu og gesti.

Auk lokana á hálendinu eru áþreifanlegustu aðgerðir sem gripið hefur verið til, að bændur huga að því að smala fé mun fyrr en annars hefði verið.
„Hér á hálendinu sunnan þjóðvegar hafa bændur þegar farið til að smala. Það hafa þeir gert eftir samráð við okkur og upplýst um ferðatilhögun sína og fjarskipti. Fjallskil eru hér mjög svæðaskipt, hver siðurinn í sinni sveit. En ég heyri af fleiri og fleiri svæðum að menn ætla frekar að sækja sitt fé á meðan þeir geta, enda vitað af góðu veðri næstu dagana,“ segir Svavar.
„Menn virðast síður ætla að smala í óvissu um náttúruvá samhliða óblíðu veðri. Áhættan er lágmörkuð með því að gera þetta fyrr en síðar.“